Fara í efni
Menning

Ný ljóðabók Þórðar er óður til Akureyrar

Þórður Sævar Jónsson hefur sent frá sér ljóðabókina heimkynni. „Akureyri er yfir og allt um kring í þessari bók, Hún er sannast sagna óður til Akureyrar,“ segir Þórður, sem er ljóðskáld og þýðandi.

Þórður Sævar fæddist árið 1989 á Akureyri. Hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur, eitt smáprósasafn, búið endurminningar vesturfarans og alþýðulistamannsins Guðjóns R. Sigurðssonar til útgáfu og íslenskað sex skáldverk eftir bandaríska rithöfundinn Richard Brautigan.

Árið 2021 gaf Þórður Sævar út ljóðabókina Brunagadd, sem fjallar um fyrsta veturinn hans á Akureyri í 22 ár. Í heimkynnum, eins konar óði til Akureyrar sem fyrr segir, skjóta líka upp kollinum myndljóð, gestabækur, sendibréf, dagbækur, snarpheitir bananar, vælandi eggjasuðutæki og bréf til láru, segir hann.

Þetta er eitt ljóðanna í heimkynnum:

25. október MMXXII

Akureyri
Kæri vinur,

Í þessum skrifuðu orðum sit ég undir berum himni.
Norðurljósin koma og fara einsog flettiskilti.

            (Núna er allt grænt)

Það hefur kyngt niður snjó uppá síðkastið.

Ég gæti stokkið fram af turni Akureyrarkirkju og ekki orðið meint af.

Sjáumst fljótlega,

Þinn vinur,

- Þórður Sævar

P.s.

(Allt orðið svart)

 

Útsýni frá Ólafsfjarðarmúla, Hvanndalabjarg norðar Ólafsfjarðar til vinstri.

A view of the midnight sun from Ólafsfjarðarmúli.

Það er bókaútgáfan Skriða á Patreksfirði sem gefur heimkynni út.