Ný bók fyrir krakka um byggingarsögu Íslands
„Börnin eru þau sem munu standa vörð um byggingar okkar í framtíðinni og því nauðsynlegt að þau hafi tækifæri til að kynnast, þekkja og vita hvað einkennir byggingarsöguna okkar,“ segir Alma Sigurðardóttir, verkefnastjóri við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands, sérfræðingur í varðveislu bygginga og nú síðast rithöfundur. Nú er ný bók eftir Ölmu, Byggingarnar okkar, er í prentsmiðjunni, en í henni er fjallað um þá strauma og stíla sem að einkenna íslenska byggingarlistasögu frá torfhúsum til steinsteyptra húsa á einfaldan hátt. Markhópurinn eru krakkar á breiðum aldri, en bókin ætti að höfða til allra sem hafa áhuga á húsum og byggingarlist.
Alma Sigurðardóttir, myndi úr bókinni Byggingarnar okkar af Ásmundarsafni, Fríkirkjuvegi 11 og Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði. Rakel Tómasdóttir málaði myndirnar.
Myndir: Aðsendar
Alma er frá Akureyri, en byggingarnar sem eru til umjöllunar í bókinni eru víðsvegar um landið. Dæmi um hús á Akureyri sem Alma fjallar um eru Aðalstræti 4 og svo fúnkis-húsin eftir Þóri Baldvinsson við Helgamagrastræti. „Byggingar og saga þeirra eru svo stór hluti af okkar daglega umhverfi,“ segir Alma. Með þekkingu á sögunni stöndum við öll, bæði hönnuðir og aðrir, betur. Fyrir arkitekta og hönnuði sem fást við breytingar, endurbætur og hönnun á manngerðu umhverfi ætti byggingarsaga hvers staðar að mínu mati að vera sá grunnur eða útgangspunktur sem unnið er út frá.“
Alma hefur reynslu af kennslu og miðlun til barna, sem nýttist vel við gerð bókarinnar. „Þegar ég kenndi í Barnaskóla Reykjavíkur, Hjallastefnunni, hafði ég tök á að prufa ólíka nálgun í kennslu á efninu,“ segir Alma. „Mín reynsla var sú að stutt og hnitmiðuð umfjöllun, grípandi myndefni, spurningar og verkleg verkefni virkuðu vel.“ Alma lagði áherslu á að tengja efni bókarinnar við aðalnámsskrá grunnskólanna og á vefsíðu bókarinnar er kennsluefni aðgengilegt. Einnig er hægt að kaupa bókina þar í forsölu.
Á heimasíðu bókarinnar, www.byggingarlist.is - er hægt að nálgast kennsluefni og sjá dæmi um verkefni sem Alma hefur unnið með krökkum. Skjáskot af heimasíðunni.
Ef sala bókarinnar gengur vel og nær 250 eintökum, ætlar Alma að gefa öllum grunnskólum á landinu eintak. Í bili segist Alma vera hætt að skrifa. „Ég hef reyndar íhugað að þýða bókina yfir á ensku og þá í leiðinni fræða áhugasama erlenda ferðamenn um byggingarsöguna okkar sem er sérstæð á svo marga vegu. Það væri líka virkilega gaman að taka umfjöllunarefnið lengra og fjalla um ólíka byggingarstíla sem einkenna nútíma arkitektúr. En sem auka verkefni með vinnu læt ég Byggingarnar okkar duga“
Grafíski hönnuðurinn Rakel Tómasdóttir sá um myndskreytingu og umbrot bókarinnar. Mynd: Aðsend.