Fara í efni
Menning

Nordplus ráðstefna í VMA öllum opin

Verkmenntaskólinn á Akureyri tekur nú þátt í Nordplus verkefni sem ber yfirskriftina Green Shift in Education. Hinir þátttökuskólarnir eru í Færeyjum, Noregi og á Grænlandi og á morgun, miðvikudag, verður veflæg ráðstefna í verkefninu og er hún öllum áhugasömum opin. Hún verður í stofu M01 í VMA kl. 11:00 og stendur í um tvær klukkustundir.

Í þessu verkefni er horft til grænna lausna í orkumálum og leitast við að fletta þær umræður og lausnir inn í kennslu í skólunum. Eðli málsins samkvæmt er nálgunin mismunandi í löndunum, hér á landi er hlutur jarðvarmans stór í orkugeiranum og á það mun Sævar Páll Stefánsson kennari vélstjórnargreina leggja áherslu í erindi sínum á vefráðstefnunni.

Samstarf fjögurra þátttökuskóla í þessu verkefni á sér margra ára sögu og hefur það oft verið kallað FING, sem vísar til þátttökulandanna Færeyja, Íslands, Noregs og Grænlands. Hinir skólarnir þrír eru Vinnuhaskulin í Þórhöfn í Færeyjum, Fagskolen Rogaland í Stavanger í Noregi og Arctic Technology/KTI råstofskolen í Sisimiut á Grænlandi.

Af hálfu VMA vinna að verkefninu Sævar, sem áður var nefndur, Benedikt Barðarson aðstoðarskólameistari og Hanna Þórey Guðmundsdóttir, sem veitir bókasafni VMA forstöðu.

Smellið hér til að sjá allar nánari upplýsingar