Fara í efni
Menning

Náttúruvá – ógnir, varnir og viðbrögð

Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður, rithöfundur og fyrrum þingmaður hefur sent frá sér bókina Náttúruvá – ógnir, varnir og viðbrögð þar sem hann fjallar um vá af völdum jarðskjálfta, alls konar eldvirkni, alls konar ofanflóða, sjávarflóða, vatnavaxta, jökulhlaupa, gróðurelda og um vá af völdum veðurlags. Einnig um hættumat, áhættumat, vöktun og skipulagsmál, almannavarnir og neyðarhjálp.

„Ég vil skipta mér af þessum málefnum og hef lengi tekið þátt í umræðunni, unnið við kennslu í raunvísindum, frætt almenning í áratugi um náttúru og umhverfi, bæði í útvarpi og sjónvarpi og með greina- og bókaskrifum,“ segir Ari Trausti.

Þekki málaflokkinn vel

Hann hefur verið raunvísindamiðlari en líka komið að málefnum náttúruvár sem þingmaður „þannig að ég þekki umhverfi málaflokksins ágætlega. Um sinn reyndi ég, ásamt Valdimar Leifssyni, að standa að sjónvarpsþáttaröð um náttúruvá á Íslandi en tókst ekki að fjármagna hana. Næsti kostur var bókverk og það liggur nú frammi eftir nærri tveggja ára vinnu, meðfram öðrum verkefnum.“

„Loftslagsbreytingar kalla fram fleiri alvarlega váatburði en að meðaltali síðasta árhundrað eða svo. Nýtt óróatímabil á Reykjanesskaga og til dæmis erfið skakkaföll vegna skriðufalla vekja sífellt meiri umræðu um náttúruvá. Hraðar tækniframfarir og stafræna byltingin auðvelda forvarnir, rannsóknir og ýmis viðbrögð. Þetta litar mjög umræðu í miðlunum og í stjórnkerfinu,“ segir Ari Trausti.

„Góður árangur vísindastofnana við að útskýra atburði, við að ákvarða forvarnir, opinbera rannsóknir og við spá atburðum er augljós og ýtir undir betri og meiri umræðu sem aftur ýtir undir að aukið fjármagn er sett til starfans við að mæta duttlungum náttúrunnar í landi sem er jafn fjölbreytt að náttúru og Ísland.“

Meiri árvekni nauðsynleg

Náttúruvá er nokkuð misskipt eftir landshlutum. „Eðlilega er hún mjög bundin við eldvirkni, jarðskjálfta, jökulhlaup og skylda vá á yngsta hluta landsins. Í hérðuðum utan eldvirka beltisins eru snjóflóð, skriðuföll og t.d. gróðureldar meðal ógna en alls staðar á landinu koma sjávarstöðubreytingar við sögu og vá vegna illviðra,“ segir Ari Trausti og bendi á að mikilvægt sé að vinna áhættumat fyrir fleiri og stærri landsvæði.

„Vandinn við alvarlega náttúruatburði kallar á aukna menntun, sem gagnast viðbrögðum við náttúruvá og enn fremur á meiri almenningsfræðslu um hana. Háværar raddir eru uppi um vandaðri skipulagningu byggða og mannvirkja með meiri áherslu á hvar og hvernig náttúruvá getur ógnað okkur. Við þeim verður að bregðast með meiri árvekni en áður.“