Fara í efni
Menning

Náttúran í ljóðum í Davíðshúsi í kvöld

Ljóðalestur í Davíðshúsi, þar sem náttúran er í aðalhlutverki. Lesari er Rakel Hinriksdóttir. Mynd: aðsend
Ljóðaunnendur eiga von á góðu í kvöld, en í Davíðshúsi ætlar Rakel Hinriksdóttir, skáld, formaður SUNN og blaðamaður á Akureyri.net að lesa valin ljóð. Viðburðurinn hefst kl. 20.00. Öll eiga ljóðin það sameiginlegt að tengjast náttúrunni á einn eða annan hátt. „Á tímum þar sem margt er sagt, og við tölum og svömlum sífellt á yfirborðinu, er ljóðið það sem getur fleytt okkur mjúklega á dýptina,“ segir Rakel. „Ég elska að lesa ljóð, að flytja orð skáldanna, sem skrifuðu þau.“
 
Rakel hefur haldið utan um ljóðaklúbb á öldrunarheimilinu Hlíð í tvö ár ásamt Arnari Arngrímssyni, rithöfundi. „Það hefur gefið mér ótrúlega mikið, og þó að ég hafi hætt að vinna á Hlíð um áramótin, lifir ljóðaklúbburinn enn,“ segir Rakel. „Þannig glugga ég stöðugt í ljóðabækurnar mínar og leita mér að nýjum, og upp á síðkastið hef ég verið að halda upp á þau náttúruljóð sem grípa mig hvað mest. Þau ætla ég að lesa í kvöld.“
 
Meðal annars verða lesin ljóð eftir Huldu, Jakobínu Sigurðardóttur, Tómas Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, Ólaf Jóhann Sigurðsson, Undínu o.fl. „Það getur vel verið, að ég lesi eitthvað af eigin ljóðum ef að tilfinningin er þannig,“ segir Rakel, en hún er virk í náttúruvernd og listsköpun hennar hefur gjarnan haft skírskotun eða verið undir áhrifum frá náttúrunni. 
 
Viðburðurinn er hluti 130 ára afmæli Davíðs Stefánssonar. Enginn aðgangseyrir en tekið er á móti frjálsum framlögum.