Myndlistar-leiðsögn um Sigurhæðir
Sunnudaginn komandi, 9. júlí, býður Hlynur Hallsson myndlistarmaður og safnstjóri upp á sérstaka myndlistar-leiðsögn um Flóru menningarhús í Sigurhæðum, með áherslu á verk Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur. Leiðsögnin hefst klukkan 13.00, tekur um hálftíma og er á íslensku. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Sýning staðarins í ár var opnuð 27. maí og stendur til og með 11. nóvember. „Um er að ræða heildarsýningu þar sem eru í einu flæði saman ný verk Guðnýjar Rósu myndlistarmanns, sem búsett er og starfandi í Brussel, innsetningar þar sem miðlað er menningararfi staðarins og sögu hússins, verk og vörur eftir nokkra aðra listamenn og skapandi aðila, en einnig er vintage textíll og eldri gripir og bækur til sölu. Það er líka hægt að setjast niður og fá íslensk villt jurtate eða uppáhellt kaffi og súkkulaðibita, eða þá ís. Við hýsum eða stöndum reglulega fyrir ólíkum menningarviðburðum, sem eru þá innandyra inn í heildarsýningunni eða úti í garði í kringum hringbekkinn undir reyniviðnum.“
Í tilkynningunni segir ennfremur: „Áhersla staðarins er á ólíkar lífsleiðir listafólks úr mismunandi greinum skapandi geirans - og endurspegla vinnustofur staðarins þann fjölbreytileika líka, en það gerir einnig menningarverkefni okkar, Pastel ritröð. Við höfum sérstakan áhuga á því hvernig fólk græjar líf sitt þannig að það geti sem mest sinnt listsköpun og starfað að menningarlífi - og jafnvel lifað á því. Frumábúendur hússins Sigurhæða þau hjónin Guðrún Runólfsdóttir og Matthías Jochumsson lifðu á Sigurhæðarárum sínum ásamt sínu fólki þar eingöngu af listsköpun sinni - í blöndu með sjálfsþurftarbúskap - og við miðlum þeirra útgáfu að listamanns lífi áfram til almennings.
Í Menningarhúsi í Sigurhæðum mætast mörg lög tímans og það endurspegla myndlistarverk Guðnýjar Rósu einkar vel og vann hún verkin sérstaklega fyrir sýninguna í ár. Verkin eru gerð af stakri nákvæmni og næmni, líka fyrir sérstöðu staðarins. Hér leggst eitt yfir annað á fínlegan máta, eitt mynstrið mætir öðru, eða að glufa myndast inn í annan heim eða tíma. Tengingar skapast við listafólk og menningar frömuði þeirra áratuga í kringum 1900 þegar íslensk lista- og menningarlíf eins og við þekkjum það í dag er í frummótun: skáldið Matthías og textíllkonuna Guðrúnu, textíllistakonuna Þóru Matthíasdóttur. Svo er það breska gengið, þau May Morris textíllistamaður, William Morris listamaður með meiru, aðalsmaðurinn George Powell, Sigríður Einarsdóttir textíl- og tónlistarkona, Eiríkur Magnússon bókavörður, Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld. Einnig Sigurður Guðmundsson málari og leikhúsfrömuður, Torfhildur Hólm rithöfundur, Ólöf Sigurðardóttur frá Hlöðum og Kristín Sigfúsdóttir skáldkona innan úr Eyjafjarðardal - og mörg fleiri. Listamaðurinn sem menningarfrömuður og miðlaðir milli menningarheima og menningarsvæða er í brennidepli.“
Sýningarhönnuðir eru Þórarinn Blöndal myndlistarmaður og Kristín Þóra Kjartansdóttir sagnfræðingur og staðarhaldari í Sigurhæðum, en listrænn ráðgjafi er Hlynur Hallsson myndlistarmaður. Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir hjá Cave Canem hönnunarstofu sér um grafíska hönnun, en textílhönnun er í höndum Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir hefur umsjón með skipulagningu og móttöku nemendahópa. Margt fleira sérhæft fólk kemur að verkefnum fyrir staðinn yfir árið.
Utan leiðsagnarinnar á sunnudag er staðurinn opinn daglega kl. 9.00-15.00.