Myndir Agnesar og Lindu á sýningu í Hörpu
Akureyringarnir Agnes Heiða Skúladóttir og Linda Ólafsdóttir eru á meðal átta Íslendinga sem eiga myndir á norrænni ljósmyndasýningu sem opnuð var í Hörpu síðastliðinn föstudag, í tilefni 95 ára afmæli Ljósmyndarafélags Íslands.
Á sýningunni eru 45 verðlaunamyndir frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Efnt var til samkeppni félaga atvinnuljósmyndara í hverju landi. Í dómnefnd fyrir íslensku myndirnar sátu Tony Sweet frá Bandaríkjunum, Gabe McClintock frá Kanada og Line Loholt frá Noregi. Myndir átta íslenskra ljósmyndara voru valdar á sýninguna, sem fyrr segir.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnaði sýninguna með formlegum hætti auk þess að veita íslenskum verðlaunahöfum sem eiga myndir á sýningunni viðurkenningar.
Eftirtaldir ljósmyndarar hlutu viðurkenningu:
- Heida HB í flokki landslagsmynda.
- Sigurður Ólafur Sigurðsson í flokka frétta- og heimildamynda.
- Aldís Pálsdóttir í flokki auglýsingamynda og í flokki portprettmynda.
Aðrir ljósmyndarar sem eiga mynd á sýningunni eru, auk Agnesar Heiðu og Lindu, Bragi Kort, Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Íris Stefánsdóttir.
Sýningin sem er opin almenningi á opnunartíma Hörpu stendur fram til fimmtudagsins 3. mars.
Ljósmynd Agnesar Heiðu Skúladóttur sem valin var á sýninguna.
Ljósmynd Lindu Ólafsdóttur sem valin var á sýninguna.