Fara í efni
Menning

„Móðirin, sem leiðtogi kynslóðanna ... “

Móðir. Mynd: unsplash.com/sergio valena

Móðirin, sem leiðtogi kynslóðanna, er sá aðili, er síst má án vera, eigi þjóðfélögin að ná sem hæstum þroska. Svo segir í elstu fréttinni á tímarit.is þar sem minnst er á Mæðradaginn. Greinin birtist í tímaritinu 19. júní, þann 11. janúar árið 1919.

Tímaritið kom út á árunum 1917-1929 og var ætlað konum. Ritstjóri var Inga Lára Lárusdóttir og umfjöllunarefni voru uppeldismál, heimilishald og þjóðmál, en Inga Lára var kvenréttindakona sem lét mikið að sér kveða á fyrri hluta 20. aldar.

Þar var hlutverki kvenna sem uppalendum nýrra kynslóða, gefin ný og mikilvæg þýðing; að ala börnin okkar upp með skilning og þroska til þess að lifa friðsælu lífi og hafna átökum

Grein Ingu Láru er barn síns tíma, en í henni er fróðlegt að lesa um vangaveltur höfundarins varðandi menntun kvenna á þessum tímapunkti í sögunni. Fyrri heimsstyrjöldinni er nýlokið og ríki Evrópu farin að líta í eigin barm, hvernig megi halda friðinn eftir þennan hildarleik. Inga Lára vitnar í grein sem hafði verið skrifuð undir dulnefni í norræna tímaritið Det nye Nord nokkru áður. Þar var hlutverki kvenna sem uppalendum nýrra kynslóða, gefin ný og mikilvæg þýðing; að ala börnin okkar upp með skilning og þroska til þess að lifa friðsælu lífi og hafna átökum. 

Greinarhöfundurinn í norræna tímaritinu kom fram undir dulnefninu Björn Símon, og telur Inga Lára það næsta víst að um Íslending sé að ræða, en höfundurinn skrifaði reglulega greinar í þetta rit um málefni Íslands. Hér er bein tilvitnun í Björn Símon og hugsjónir hans (eða hennar?) varðandi mæðradaginn:

»Mæðradagurinn« er til orðinn í Vesturheimi, en er nú að breiðast út um löndin og einnig að ná fótfestu á Norðurlöndum. Vill höfundur að Norræna kvennasambandið, sem stofnað var í Stokkhólmi 1917, gangist fyrir mæðradegi hvervetna á Norðurlöndunum. Á heimilunum sé hann, samkvæmt sinni upprunalegu ákvörðun tyllidagur mæðranna. En auk þess sé þann dag alment safnað fé, t. d. með sölu á merkjum, og séu af því stofnaðir tveir sjóðir. Öðrum sjóðnum sé varið til styrktar fátækum, þreyttum mæðrum, þannig, að þær geti leitað sér hvíldar og hressingar, er með þarf; en hinum varið til þess, að koma á fót mæðraháskóla. —   

 

Hvort óskir hins dularfulla Björns Símons hafi orðið að veruleika, um merkjasölu og söfnun, annars vegar fyrir mæðraháskóla og hinsvegar fyrir fátækar og þreyttar mæður - er blaðamaður óviss um. En eitt er víst, að enn eru til fátækar og þreyttar mæður, en mæðraháskólinn varð nú sennilega ekki að veruleika. Lesendur mega gjarnan leiðrétta mig ef svo er. En eitt er víst, að við höfum samt krotað þennan dag í almanakið til frambúðar og gerum mæðrum okkar dagamun.

Þó aðeins rúm öld sé liðin frá því að Björn Símon velti fyrir sér mikilvægi þess að mæður skyldu mennta sig til þess eins að vera hæfar til þess að ala upp friðelskandi börn, höfum við sem betur fer tekið löng, stór og mikilvæg skref í átt að í jafnrétti kynjanna og mikilvægi þeirra í lífi barnanna okkar. Í dag fara konur ekki bara í skóla til þess að verða hæfari mæður. Eins gerast karlar ekki bara feður til þess að fjölga mannkyninu, heldur líka til þess að vera pabbar. 

Í dag eru mæður og feður jafnfætis í foreldrahlutverkinu. Vissulega er stundum frekar hringt í mömmuna þegar barnið meiðir sig á leikskólanum. Vissulega eru fleiri konur í foreldraráðum í skólum og íþróttastarfi en karlar. Vissulega er þriðja vaktin enn þá ójöfn. En við erum langt komin, og umræðan er að flytja fjöll. 

Í dag er mæðradagurinn, sem er rótgróinn í menningu okkar. Í tilefni hans var þessi litla grein skrifuð.

Til hamingju með daginn kæru mömmur!

Heimildir:

Greinin í 19. júlí eftir Ingu Láru á tímarit.is

Inga Lára Lárusdóttir - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið