„Mikill sinfónískur kraftur á Akureyri“
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SN) hefur tekist á við mjög fjölbreytt verkefni síðustu árin. Fyrir utan hefðbundna dagskrá af klassískum tónleikum, hefur verið boðið upp á barnatónleika, svokallaða cross-over tónleika (þar sem tónlistarfólk úr öðrum geirum tónlistarinnar leikur sína tónlist með hljómsveitinni) og síðan eru það upptöku- og leiguverkefni hljómsveitarinnar sem hafa færst í aukana í Covid-faraldrinum og í kjölfar hans. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson er tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, en hann tók á móti blaðamanni í forvitnilegu herbergi á annarri hæð menningarhússins Hofs
Heimurinn tengist hérna inni í þessari stjórnstöð
„Þetta er eiginlega Hollywood Akureyrar, ef hægt er að segja sem svo,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Hérna er musteri SinfoniaNord, en það er nafnið sem við notum fyrir SN á erlendri grundu og stundum hérna heima líka. Þá er það gælunafn hljómsveitarinnar eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands notar Sinfó sem gælunafn í óhefðbundnum verkefnum.
Hérna í Hofi höfum við tekið upp kvikmyndatónlist fyrir allan heiminn.“ Á listanum yfir viðskiptavini eru Sony, Disney, Netflix og fleiri risar úr framleiðsluheiminum. „Við höfum hljóðritað um það bil 60 titla, og það eru góðar líkur á því að þú hafir heyrt okkur spila, bara með því að horfa á þáttaseríu á Netflix eða fara í bíó.“ SinfoniaNord er nafnið á þessu verkefni.
Þorvaldur í upptökuherberginu, þar sem heimurinn opnast fyrir fjölbreyttum verkefnum SinfoniaNord. Á meðan upptöku stendur ómar herbergið af tónum hljóðfæraleikaranna, sem eru staðsett beint fyrir neðan, á sviði Hamraborgar. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Kastað út önglum fyrir upptökuverkefni
„Fyrir áramót byrjuðum við að auglýsa starfsemi SinfoniaNord erlendis, í raun í fyrsta skipti,“ segir Þorvaldur Bjarni, en hingað til hefur hljómsveitin fengið verkefni vegna orðspors og tengslanets Atla Örvarssonar, meðal annars. „Það eru strax komin viðbrögð við auglýsingu sem við sendum til Hollywood, en ég er einmitt að fara að senda tilboð á stóran viðskiptavin þegar þessu viðtali er lokið.“ Verkefnið sem um ræðir krefst 50 manna sinfóníuhljómsveitar í tveggja daga upptöku og Þorvaldur segir að svoleiðis verkefni velti um það bil 7-8 milljónum. „Við krossum bara fingur að landa þessu,“ segir tónlistarstjórinn spenntur og bjartsýnn fyrir komandi tímum.
„Þetta herbergi er stjórnstöðin,“ segir Þorvaldur, en glöggir lesendur sjá að það kemst ekki 50 manna hljómsveit inn í þetta herbergi. „Hér situr þriggja manna teymi sem tekur upp tónlistina. Á skjáunum sérðu hljómsveitina á sviðinu í Hamraborg, sem er beint undir herberginu. Á öðrum skjá rúllar kvikmyndin, sjónvarpsþátturinn eða tölvuleikurinn sem um ræðir. Upptökustjórinn er svo með beint samtal við stjórnandann.“ Viðskiptavinurinn situr á sama tíma í sínu heimalandi, fylgist með í rauntíma og allir eru í fjarsambandi á meðan upptökum stendur. „Heimurinn tengist hérna inni í þessari stjórnstöð,“ segir Þorvaldur Bjarni. Stundum velja tónskáldin þó að ferðast til Íslands til að vera viðstödd upptökurnar, það hefur í raun verið óvenju vinsælt hér í Hofi.
Góð aðsókn og mikill sinfónískur kraftur á Akureyri
„Hér opnaðist gluggi út í heiminn fyrir mér, sem tónlistarmanni og stjórnanda,“ segir Þorvaldur, sem ætlaði sér bara að vera í þrjú ár á Akureyri, þegar hann tók við Sinfóníuhljómsveitinni árið 2015. „Síðan hafa liðið tíu ár og ég er betur tengdur núna í tónlistarbransanum erlendis en ég var áður, þrátt fyrir langan og fjölbreyttan feril með Todmobile, í leikhúsinu, hljóðverinu og starfi mínu með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleira.
Það ber reyndar á breyttri kauphegðun eftir Covid, en fólk er minna að versla tónleikamiða fram í tímann. Mætir frekar á staðinn.
„Það er mikill sinfónískur kraftur á Akureyri. Ég tók nýlega saman það sem við höfum gert, á þessum tíu árum síðan Menningarfélagið var stofnað,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Hátt í 70% af tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hafa verið uppseldir eða vel seldir á þessum tíma. 20% tónleikanna voru með aðsókn í meðallagi og aðeins fjögur verkefni hafa valdið vonbrigðum. Reikna má með að tvö af þessum tíu árum hafi dottið út í tónleikahaldi vegna Covid-faraldursins, en þá vó upp á móti mikið að gera í upptökverkefnum,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Það ber reyndar á breyttri kauphegðun eftir Covid, en fólk er minna að versla tónleikamiða fram í tímann. Mætir frekar á staðinn og kaupir þar, eins og var áður,“ segir Þorvaldur.
Þjónustuverkefnin eru fjölbreytt og oft frábær kynning
Menningarfélag Akureyrar fær menningarstyrk frá ríki og bæ til að halda úti framleiðslu á menningarviðburðum á Norðurlandi. Í gegnum þann stuðning getur SN haldið á hverju ári um 4-8 sinfóníutónleika. En til þess að nóg sé að gera þess utan, koma upptökuverkefnin sterk inn, sem og þjónustuverkefni, eins og Þorvaldur kallar þau.
„Það vantar stundum sinfónískan hljóm, þegar tónlistarfólk, hljómsveitir eða viðburðarhaldarar eru að bjóða upp á stóra viðburði,“ segir hann. „Til dæmis kannski einhverja rokksinfóníska tónleika, eða kvikmyndatónleika, þar sem myndin er sýnd á stóru tjaldi og hljómsveitin spilar með í rauntíma.“ Við höfum tekið að okkur mjög fjölbreytt svona verkefni síðan 2015, eitthvað um 30 talsins og þar hafa tæplega 42.000 manns barið hljómsveitina augum.“
Hér spilar SN fyrir fullu húsi í Hamraborg, Pláneturnar eftir Gustav Holst. Mynd: MAk
„Þetta eru grand verkefni eins og t.d Joker live to film, þar sem við vorum fyrsta hljómsveitin í Evrópu til að leika þessa verðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur á tónleikum,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Við lékum með Andrea Bocelli í Kórnum fyrir 8000 manns og lékum með öllum þremur Hringadróttinssögu myndunum á 8 tónleikum, bara til að nefna nokkur verkefni.
„Þetta er allt fyrir utan okkar eigin tónleika, sem við höldum fyrir menningarstyrkinn frá ríki og bæ,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Þar ber okkur að vera kyndilberar sinfónískar tónlistar á landsbyggðinni, hlutverk sem við tökum afar alvarlega.“ Farið verður frekar ofan í saumana á þessu mikilvæga hlutverki í síðari hluta viðtalsins, sem verður birtur á morgun.
Eitt af hlutverkum hljómsveitarinnar er að frumflytja nýja, íslenska tónlist
„Við héldum stóra tónleika í desember þar sem við fluttum bæði meistaraverkið Boléro eftir Ravel og tvö frumsamin verk eftir íslensk tónskáld,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Annað þeirra, A fragile hope, er eftir Daníel Bjarnason, samið í minningu Jóhanns Jóhannssonar kvikmyndatónskálds. Einnig fluttum við Konsert nr. 2 fyrir hljómsveit eftir Snorra Sigfús Birgisson sem var að hluta til byggður á þjóðsögum og stefjum frá Norðurlandi.“ Þorvaldur var hæstánægður með aðsóknina, en rúmlega 400 manns mættu á tónleikana, sem voru fluttir í Hofi. Það að frumflytja ný íslensk verk er eitt af því sem SN setur í forgang á hverju dagskrárári.
Fagrir strengir, hörpusláttur og hátíðlegt barrokk
Fyrstu tónleikar ársins 2025, Meistarar strengjanna, eru á dagskrá næsta sunnudag, 26. janúar kl. 16 í Hamraborg. „Þetta verða yndislegir strengjatónleikar,“ segir Þorvaldur dreyminn. „Það er ró, fegurð og hugleiðslutónlist á dagskrá, verk sem hreyfa við þér, næra og heila. Við ætlum að flytja verkin Öldurót og Spiral eftir Ólaf Arnalds, en hann hefur haft gríðarleg áhrif á það, hvernig er skrifað fyrir strengi í dag.“
„Við ætlum líka að flytja eitt áhrifamesta verk 20. aldarinnar, Adagio fyrir strengi eftir Samuel Barber,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Það er ofboðslega fallegt og virðulegt, en það er líka tregi í því. Það er svo skrítið, en ég get ekki hlustað á þetta verk án þess að fá kökk í hálsinn. Ég hef reynt! Einnig verður lagt í eitt mest spilaða strengjaverk heims, Serenade for strings í C-dúr eftir Tchaikovsky. „Ég get lofað því að gestir tónleikanna upplifa fegurð, stresslosun, fá kökk í hálsinn og hreinsun tárakirtlanna.“
Þá kemur Elísabet Waage, sem ég kalla alltaf drottninguna, af því að hún er eins og drottning þegar hún er við hörpuna
Í verkum Ólafs Arnalds fær ný konsertharpa Menningarfélagsins að hljóma, en hún var keypt á síðasta ári. „Við leyfum henni að hljóma í Meisturum strengjanna, en svo kemur að aðalviðburði hörpunnar síðar, þegar við höldum sérstaka tónleika í mars sem heita Hörpusláttur í Hofi,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Þá kemur Elísabet Waage, sem ég kalla alltaf drottninguna, af því að hún er eins og drottning þegar hún er við hörpuna, sem er drottning hljóðfæranna. Hún verður þannig séð að vígja hörpuna á þessum tónleikum.“ 9 manna hljómsveit mun spila með Elísabetu, en hún hefur sjálf valið verk fyrir hörpu sem hún mun sjálf kynna. „Það verður því ekki bara falleg tónlist á dagskrá, þetta verður fróðlegt líka,“ segir Þorvaldur Bjarni.
Páskatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hafa verið stærstu tónleikar ársins, og það verður ekkert brugðið út af því í ár. „Við ætlum að flytja Jóhannesarpassíuna, eftir Johann Sebastian Bach,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Þetta er eitt af stóru verkum hans sem er reglulega flutt um allan heim. Okkar ástsælustu einsöngvarar munu taka þátt, Kór Akureyrarkirkju og Kammerkór Norðurlands sameina raddir sínar og það verður ekkert minna en stórkostlegt.“ Þorvaldur segir að það sé alltaf gaman þegar kórinn sé svolítið stór, þá umlykur hljómurinn áhorfandann, sem er svo hátíðlegt.
Pétur og Úlfurinn fyrir yngsta stig grunnskólanna í vor
Í vor verður svo sjónum beint að börnunum, en þá ætlar Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, að vera sögumaður á tónleikum fyrir nemendur úr grunnskólum bæjarins. „Við ætlum að flytja Pétur og Úlfinn fyrir krakkana, sem er mjög oft fyrsta sinfóníska verkið sem krakkar kynnast,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Ég vona að við kveikjum áhuga hjá þessum börnum, og ég er viss um að Kristinn, eða Kiddi, eins og ég kalla hann, mun geta opnað þennan heim fyrir þeim.“ Öllum börnum úr 1.-3. bekk grunnskólanna verður boðið á tónleikana, en þeir eru ekki opnir almenningi.
Þetta var fyrri hlutinn af viðtalinu við Þorvald Bjarna. Á morgun heyrum við meira af verkefnum SN, hvernig vinnustaður hjómsveitin sé, og hvað Þorvaldur sér fyrir sér í framtíðinni.
Á MORGUN – DREYMIR UM AÐ BJÓÐA FASTRÁÐNINGU HJÁ SN