Merkilegar ljósmyndir á Minjasafninu
Stórmerkileg ljósmyndasýning, Í skugganum, verður opnuð í Minjasafninu á Akureyri á laugardaginn. Á sýningunni er ljósi varpað á fyrstu konurnar sem störfuðu sem ljósmyndarar í danska konungsríkinu á síðari hluta 19. aldar og fram á fyrstu áratugi þeirrar 20.
- Á meðal ljósmyndaranna sem eiga verk á sýningunni er Anna Schiöth sem tók myndir á Akureyri, bæði af íbúum en ekki síður af umhverfinu. Ljósmyndir Önnu eru varðveittar á Minjasafninu á Akureyri.
Sýningin er gerð af Museum Østjylland í Randers, vinabæ Akureyrar í Danmörku, undir titlinum I skyggen – De første kvindelige fotografer. Þar var hún fyrst sett upp í apríl 2021 og hefur síðan farið víða um Danmörku og er á leið til Færeyja.
Hér eru kynnt í fyrsta sinn verk tíu einstakra kvenna á samnorrænni ljósmyndasýningu, eins og það er orðað í tilkynningu frá Minjasafninu.
Konur stóðu í skugganum
„Yfirskrift sýningarinnar hefur tvíþætta merkingu. Konurnar stóðu í skugganum á bakvið myndavélina en voru oft einnig í skugga karlskyns ljósmyndara síns samtíma. Þannig voru verk kvennanna stundum merkt eiginmönnum þeirra. Konurnar voru hins vegar frumkvöðlar á sviði ljósmyndunar til jafns við karla.
Á sýningunni stíga konurnar út úr skugganum og taka sér rými í sögu ljósmyndunar. Sýningin varpar ljósi á þau áhrif sem kvenljósmyndarar höfðu á þróun ljósmyndunar sem listgreinar og þær aðstæður sem þær unnu við í Danmörku, Íslandi, Færeyjum, Ameríku og dönsku Vestur-Indíum.“
Ísland var hluti danska konungsríkisins á þeim tíma sem sýningin spannar og því eru tveir fulltrúar Íslands á sýningunni. Annars vegar Nicolina Weywadt og hins vegar Anna Schiöth, sem áður var nefnd.
Sýningin verður formlega opnuð laugardaginn 8. október kl. 15:30. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, opnar sýninguna og Hörður Geirsson, safnvörður, segir frá myndum Önnu Schiöth.
Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir er á laugardaginn.