Listasafnið: Málþing um ævi og störf Þorvaldar
Málþing verður haldið í Listasafninu á Akureyri næsta laugardag, í tilefni yfirlitssýningar á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar, Lengi skal manninn reyna.
Aðgangseyrir að safninu gildir, en frítt er fyrir handahafa árskorts og Vini Listasafnsins. Hægt verður að fylgjast með málþinginu á Zoom og er skráning á heimasíðu Listasafnsins – smellið hér.
Þorvaldur Þorsteinsson var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í listsköpun. Auk þess að fást við myndlist samdi hann skáldsögur, leikrit, ljóð og tónlist og varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991 og síðar sýnt í sjónvarpi. Skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu sem söngleikur 1993. Fjórar bækur Þorvaldar um Blíðfinn hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Borgarleikhúsið setti upp leikrit hans And Björk of Course 2002. Hann hélt margar einkasýningar, jafnt á Íslandi sem erlendis, og tók þátt í alþjóðlegum samsýningum víða um heim.
Lengi skal manninn reyna stendur yfir til 11. apríl næstkomandi og er samstarfsverkefni Listasafnsins og Hafnarborgar í Hafnarfirði, en þar verður sýningin sett upp haustið 2021.
Fundarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og dagskrá málþingsins þessi:
- Kl. 14.00 - Ávarp safnstjóra, Hlyns Hallsonar
- Kl. 14.05 - Ég er með mikilvæg skilaboð; Ágústa Kristófersdóttir, sýningarstjóri
- Kl. 14.10 - Ég gef þér leyfi; Ragna Sigurðardóttir, rithöfundur og myndlistarmaður
- Kl. 14.20 - Ævintýrareglur – Þorvaldur í leikhúsinu og leikhúsið í vasanum; Þorgeir Tryggvason, textahöfundur
- Kl. 14.30 - Viltu leika? Um þýðingu leiksins í lífi og list Þorvaldar; Arna Valsdóttir, myndlistarmaður og kennari
- Kl. 14.40 - Um Engilinn á sviðinu; Finnur Arnar, myndlistarmaður og höfundur og leikstjóri Engilsins
- Kl. 14.50 - Spurningar og umræður
Málþinginu lýkur kl. 16.00.