Fara í efni
Menning

Malpokar leyfðir að hætti Populus Tremula

Populus menn bíða spenntir! Ljósmynd: Daníel Starrason.

Skemmtikvöld að hætti Populus Tremula verður haldið í Deiglunni næsta laugardagskvöld, 11. september. Samkoman markar upphaf  raðar margvíslegra viðburða næstu mánuði í tilefni 30 ára afmælis Gilfélagsins.

Í tilkynningu frá Gilfélaginu segir: „Hið merka menningarfélag og vaxtarbroddur Listagilsins, Gilfélagið, verður 30 ára núna í haust. Því verður fagnað með röð viðburða sem munu endast inn á næsta ár. Við munum byrja með tónleikum þar sem félagar okkar handan götunnar úr Populus Tremula, munu rísa úr dvala með fríðu föruneyti og halda uppá þessi tímamót í Deiglunni ...“

Tekið verður úr lás klukkan 20.00 og er aðgangur ókeypis meðan húsrúm og sóttvarnir leyfa.

Í tilkynningu segir að á þeim tíu árum sem Populus Tremula hópurinn réði ríkjum í kjallaranum undir Listasafninu, 2004 til 2014, hafi félagsskapurinn verið reiðubúinn að skemmta sér og öðrum og fá í lið með sér fjölda listamanna, með fjölbreytilegum uppákomum; myndlistasýningum, tónleikum af flestu tagi og ljóðalestri.

„Undir hverri auglýsingu um kvöldskemmtanir stóð Malpokar leyfðir, enda var ekkert sjálfsagðara.“ Fyrir þá sem ekki eru vissir merkir það að heimilt sé að koma með nesti!

Í tilkynningunni segir að í boði verði fjölbreytt ljóða- og tónlistardagskrá. Fram koma:

  • Húsband Populus Tremula – þeir sem eiga heimangengt.
  • Arna Valsdóttir
  • Jón Laxdal
  • Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir
  • Aðalsteinn Svanur Sigfússon
  • Viktor Daði Pálmarsson
  • Pönkband Populus

Enn fremur segir í tilkynningunni: „Gilfélagið var formlega stofnað 30. nóvember 1991 og fagnar því 30 ára afmæli í ár. Stofnun Gilfélagsins markaði upphaf að menningarstarfsemi í Listagilinu á Akureyri. Með stuðningi Akureyrarbæjar rekur Gilfélagið fjölnotasalinn Deigluna og hefur umsjón með gestavinnustofu. Markmið félagsins er að efla menningar- og listalíf í bænum, auka tengsl almennings við listir og koma á samskiptum norðlenskra listamanna við innlenda og erlenda listamenn.“