Magni sigraði: „Ég er ennþá í hálfgerðu sjokki“

Magni Ásgeirsson hlaut í gærkvöldi íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng í flokknum popp-, rokk-, hipphopp- og raftónlist. Verðlaunin voru afhent í Silfurbergi í Hörpu, í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins. Magni er búsettur á Akureyri með fjölskyldu sinni, rekur tónlistarskólann Tónræktina og starfar sem tónlistarmaður hér í bæ, þó að verkefnin séu mörg og víða.
Ég held áfram að reka tónlistarskóla, spila í allskonar hljómsveitum og hafa gaman af þessu stórskemmtilega lífi!
Magni segir við blaðamann Akureyri.net að það hafi komið sér gríðarlega á óvart að fá þessa viðurkenningu. „Ég er ennþá í hálfgerðu sjokki. Nú er þetta bara óskaplega skemmtilegt og ég er mjög meyr, það er búið að rigna yfir mig allskonar fallegum kveðjum og mér er mikill heiður sýndur.“
„Á döfinni hjá mér er að ég ætla að halda áfram að spila með öllum vinum mínum,“ segir hann. „Næstu helgar er ég að fara að spila með Hreim og Gunna Óla, svo er bara áfram veginn. Það er endalaust að gera eins og vanalega. Árið mitt verður bara svipað og síðustu tíu - spila, spila, spila og vonandi taka upp einhverja tónlist líka. Gera eitthvað skemmtilegt!“
Magni verður seint talinn værukær og latur til verka, en hann viðurkennir þó að það sé allt gott í hófi. „Ég ætla að taka því aðeins rólegra en á síðasta ári, það var kannski full mikið að gera hjá mér. Það þarf víst líka að setjast eitthvað niður og slappa af,“ segir hann. „En það er bara svo gaman! Ég held áfram að reka tónlistarskóla, spila í allskonar hljómsveitum og hafa gaman af þessu stórskemmtilega lífi!“
Önnur sem tilnefnd voru í flokknum: Árný Margrét, GDRN, Daníel Ágúst Haraldsson og Emiliana Torrini.
Hér má sjá lista yfir alla verðlaunahafa