Fara í efni
Menning

MA-ingar í „beinu rútuflugi“ til Portúgal

MA-ingarnir stoppuðu í Staðarskóla um hádegisbil þar sem Heimsferðir buðu öllum upp á samloku og drykk.

Um 140 útskriftarnemar úr Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri eru þessa stundina á leið í „beinu rútuflugi“ til Portúgals. 

Hópurinn átti að fljúga utan í morgun frá Akureyri, hafði lokið innritun og farið í gegnum hefðbundna öryggisleit, þegar endanlega varð ljóst að flugvél á vegum Heimsferða gat ekki lent í höfuðstað Norðurlands veðurs. Sannarlega óvenjulegt vandamál á þessum tíma árs, en  mikil snjókoma var á Akureyri í morgun og hvasst að auki.

Hópur útskriftarnema fer jafnan í sólarfrí milli prófloka og brautskráningar frá MA sem verður að vanda á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.

MA-ingarnir létu veðrið og vesenið ekki á sig fá heldur héldu glaðbeittir af stað suður í rútum og Akureyri.net fékk meðfylgjandi myndir sendar þegar staldrað var við í Staðarskála. Þar buðu Heimsferðir upp á samlokur og drykki.

Vélin býður hópsins í Keflavík og MA-ingar verða væntanlega komnir á leiðarenda fyrir kvöldið. Þeir vakna því við aðrar aðstæður í fyrramálið en í morgun.

  • Þegar Gísli heitinn Jónsson á Ferðaskrifstofu Akureyrar bauð upp á beint flug frá Akureyri til útlanda í fyrsta skipti – til Kaupmannahafnar í mars 1982 – vildi ekki betur til en svo að veðrið var ámóta og nú. Því var gripið til þess ráðs að smala hópnum saman og aka suður um í rútum.  Þegar á Öxnadalsheiðina kom voru komnar keðjur undir „þotuna“ eins og blaðamaðurinn Gísli Sigurgeirsson orðaði það svo skemmtilega í DV á sínum tíma.  Ferðin gekk vel eftir það, og vonandi gengur allt að óskum einnig nú. Gjarnan var talað í léttum dúr um þessa frumraun Gísla Jónssonar sem rútuflug og því leyfir Akureyri.net sér að gera það nú ... 

Athugið - Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar kom fram að vélinni hefði verið flogið frá Keflavík í morgun en ekki verið hægt að lenda á Akureyri. Hið rétta er að hún fór aldrei frá Keflavík vegna aðstæðna á Akureyri. Beðist er velvirðingar á mistökunum.