Lofsöngur saminn upp úr lífskrísu Matthíasar
Kristín Þóra Kjartansdóttir, sagnfræðingur og staðarhaldari í Sigurhæðum, flutti áhugaverða hugvekju við hátíðarmessu í Akureyrarkirkju í gær, 17. nóvember, tilefni af 150 ára afmæli Lofsöngsins; sálmsins sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Akureyri.net fékk góðfúslegt leyfi Kristínar Þóru til að birta hugvekjuna. Þess má geta að Matthías Jochumsson, höfundur sálmsins, lést á þessum degi - 18. nóvember - árið 1920.
„Sálmurinn Lofsöngur verður til á Bretlandi í þremur erindum, fyrsta erindið, það sem yfirleitt er sungið, skrifar Matthías í Edinborg hjá Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáldi, sem samdi svo lagið,“ rifjar Kristín Þóra upp.
„Seinni tvö erindin semur Matthías svo í London hjá vinafjölskyldu á Englastræti þá í hálfgerðu hugarvíli yfir óskilgetna stúlkubarninu sínu uppi á Kjalarnesi. Og yfir framtíð sinni í heild,“ segir hún og vísar til þess að Guðrún Runólfsdóttir ól Matthíasi barn áður en þau giftust árið 1875. Hann var settur í leyfi frá preststörfum „sökum þessarar tímaskekkju í getnaði,“ eins og Kristín orðar það, „en beðinn um það nánast í sama andartaki að semja hátíðarsálm í tilefni þess að á árinu 1874 er Danakonungur að koma í fyrsta sinn í nýlenduna sína norður við Íshaf og það með stjórnarskrá og í tilefni af 1000 ára landnámshátíð.“
Eiginhandarrit Matthíasar Jochumssonar að Lofsöngnum. Handrit Matthíasar og nótur Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, sem samdi lagið sið sálminn, eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Mynd af vef safnsins.
Kristín segir: „Hann er ekki á góðum stað í lífinu, veit ekki hvort hann á að giftast í þriðja sinn því tvær fyrri konur höfðu dáið eftir fárra missera hjónaband, hann er fullur trúarefa, ósáttari við kirkjuna - og er að vinna í því að kaupa stærsta dagblað landsins, Þjóðólf, sem hann svo gerir, með bresku fjármagni.“
Hátíðarsálmurinn sem löngu síðar eða árið 1983 varð með lögum þjóðsöngur Íslendinga „er því saminn upp úr þessari miklu lífskrísu Matthíasar og þeirri stund í lífi þeirra beggja þegar leiðir þeirra liggja saman, Guðrúnar og Matthíasar. En Matthías nær í Bretlandi og misserin á eftir með góðra vina hjálp og ekki sist fyrir tilstilli uppáhalds systur sinnar Ásthildar Jochumsdóttur að snúa við blaðinu og lendir heima aftur nýr maður. - Og það er þessi viðsnúningur sem er svo mikilvægur.“
Smellið hér til að lesa hugvekju Kristínar Þóru.