Fara í efni
Menning

Ljósmyndir og litaflóð Áskels í Deiglunni

 Áskell Þórisson, ljósmyndari og blaðamaður, opnar í dag sýninguna Ljósmyndir og litaflóð í Deiglunni í Listagilinu.

„Um árabil hefur Áskell einbeitt sér að náttúrulífsmyndum og gjarnan tekið nærmyndir af því sem við skoðum sjaldan. Þá hefur hann unnið myndirnar í myndvinnsluforritum og náð fram litbrigðum sem gera myndirnar ólíkar því sem við eigum að venjast,“ segir í tilkynningu frá Gilfélaginu.

„Fyrir fjórum árum eignaðist ég nýja myndavél og macro-linsu. Þessi tækjabúnaður opnaði fyrir mér alveg nýjan heim; nýja möguleika,“ segir Áskell Þórisson. „Með myndvinnsluforritum get ég unnið myndirnar þar til þær fá það yfirbragð sem mér líkar. Ég hika ekki við að ýkja liti og draga fram þá liti sem ber minna á.“

Myndirnar eru af ýmsum stærðum en allar eru þær prentaðar á striga sem er strekktur á blindramma.

Áskell er Akureyringur að ætt og uppruna. Hann var meðal annars blaðamaður og síðar ritstjóri Dags. Síðar stofnaði hann Bændablaðið fyrir Bændasamtök Íslands og ritstýrði blaðinu um árabil.

Sýningin verður opin í dag klukkan 17.00 til 19.00. Hún verður síðan opin næstu þrjá daga, föstudag til sunnudags, klukkan 13.00 til 17.00.

Heimasíða Áskels