Ljóðamála – ljóðið lifnar við á N4 í sumar
Ljóðamála á almannafæri er ljóðamyndbandahátíð sem er að hefjast á sjónvarpsstöðinni N4. Þar er ljóðskáldum og kvikmyndagerðarmönnum stefnt saman til að búa til ljóðahátíð fyrir sjónvarp og net. Fyrsti þátturinn er á dagskrá í kvöld klukkan 20.30.
Slíkt stefnumót átti upphaflega að verða lítill hluti af stærri ljóðahátíð á Norðurlandi síðasta haust, að sögn Ásgeirs H. Ingólfssonar, umsjónarmanns þáttanna, en nokkrar covid-bylgjur komu í veg fyrir þá hátíð og því var ákveðið að breyta algjörlega um kúrs og leggja mikinn metnað í myndvinnslu, frekar en að bíða eftir að geta lesið upp fyrir framan fólk.
Niðurstaðan varð sjö þátta sería með 14 ljóðskáldum og sjö leikstjórum sem sýnd verður á N4 í sumar, auk þess sem efnið mun einnig birtast á vefnum smygl.is í bland við alls kyns viðbótarefni.
Ljóðskáldin sem koma fram eru eftirfarandi:
Akureyrarskáldin Arnar Már Arngrímsson, Eyþór Gylfason, Sesselía Ólafs, Vilhjálmur B. Bragason og Ásgeir H Ingólfsson, að sunnan koma svo þau Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Ramos, Loki, Soffía Bjarnadóttir, Þórdís Helgadóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Fulltrúar umheimsins eru svo hin tékkneska Tereza Riedlbauchová, Jonas Gren frá Svíþjóð og Vestur-Íslendingurinn Darrell Jónsson frá Bandaríkjunum.
Ilona Gottwaldova, Eiríkur Örn Norðdahl og Ásgeir H Ingólfsson sjá um að þýða ljóð þeirra síðastnefndu og munu þau öll birtast á skjánum líka, „enda löngu tímabært að gera þýðendur aðeins sýnilegri,“ segir í kynningu.
Kvikmyndagerðarmennirnir sem færa áhorfendum ljóðskáldin heim í stofu eru þessir: Kári Liljendal, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Atli Sigurjónsson, Haukur Valdimar Pálsson, Hallur Örn Árnason, Gunnlaugur Starri Gylfason og Darrell Jónsson.
Darrell sá líka um upptöku í stúdíói í MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána.
Það er Ásgeir H Ingólfsson sem hefur yfirumsjón með þáttaröðinni. Framleiðendur eru Menningarsmygl og Urban Space Epics.
Carl Warwick samdi stef þáttanna út frá broti úr Völuspá.
Styrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn.
Smellið hér til að sjá kynningu á þáttunum.