Menning
Ljóðakvöld Sigríðar Soffíu í Davíðshúsi
14.03.2024 kl. 11:20
Hvað gerir dansari sem getur ekki dansað? Hvað gerir kona í krabbameinsmeðferð í miðjum heimsfaraldri?
Þannig er spurt í tilkynningu frá Minjasafninu á Akureyri. Og spurningunni er svarað: Listakonan Sigríður Soffía Níelsdóttir tengdi saman ljóð og dans.
Sigríður Soffía Níelsdóttir – Sigga Soffía – sendi á síðasta ári frá sér ljóðabókina Til hamingju með að vera mannleg sem öðlaðist líf á sviði Þjóðleikhússins sem dansverk. Óhætt er að segja að verkið hafi vakið mikla athygli. Ein sýning verður á verkinu í Hofi, næsta laugardagskvöld, og Akureyri.net leyfir sér að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að mæta og upplifa magnað verk. Þúsund krónur af hverjum seldum miða rennur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.
Í kvöld kemur höfundurinn fram á ljóðakvöldi í Davíðshúsi. Þar les „Sigga Soffía sín uppáhaldsljóð eftir Davíð Stefánsson og úr eigin verki, sem fjallar um mikilvægi vináttunnar, andlegan styrk og samfélag kvenna sem standa hver með annarri,“ segir í tilkynningunni.
„Tenging ljóðlistar og sviðslista er Siggu Soffíu eðlislæg og því hefur ljóðabók hennar orðið að sviðslistaverki sem sýnt verður í Hofi 16. mars. Það er því upplagt að fá forsmekkinn í Davíðshúsi áður en haldið er í Hof. Enginn aðgangseyrir er að viðburðinum í Davíðshúsi en tekið er á móti frjálsum framlögum sem renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis - KAON.“
Ljóðakvöldið í Davíðshúsi við Bjarkarstíg hefst kl. 20.00 í kvöld.
Viðtal birtist við Sigríði Soffíu á Akureyri.net nýverið. Smellið hér til að lesa: „Alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt“
Þetta er fyrri hluti samtals við Sigríði Soffíu, sá síðari birtist á laugardaginn.