Fara í efni
Menning

Litróf orgelsins – Eyþór Ingi í Akureyrarkirkju

Eyþór Ingi Jónsson organisti í Akureyrarkirkju heldur tónleika í Akureyrarkirkju á morgun, laugardag, þar sem hann flytur verk eftir ýmis tónskáld. Þetta eru fyrsti tónleikarnir í verkefni sem mun standa yfir næstu misseri.

Tónleikarnir á morgun hefjast klukkan 12.00 en kl. 11.45 heldur Eyþór stutt erindi um efnisskrána. Tónleikarnir standa í 40 til 45 mínútur og er miðaverð 3.000 krónur.

Eyþór Ingi flytur verk eftir Johann Sebastian Bach, Petr Eben, Joseph Haydn, Hauk Guðlaugsson, Hildi Guðnadóttur, Ghislaine Reece-Trapp, Robert Schumann, Smára Ólason og Johann Ulrich Steigleder. „Eyþór er að hefja tónleikaverkefni fyrir næstu misserin sem hann kallar Litróf orgelsins, en hann mun leggja metnað í að sýna fjölbreytileika hljóðfærisins með því að spila afar fjölbreytta orgeltónlist og umritanir á öðrum verkum fyrir orgel,“ segir í tilkynningu.

„Á tónleikunum á laugardag spilar Eyþór kafla úr stærri söfnum verka eftir Schumann, Bach, Eben og Steigleder, en Eyþór er að vinna í að spila alla þessa flokka verka. Einnig spilar hann verk eftir tvö ung og framúrskarandi tónskáld, þær Hildi Guðnadóttur og Ghislaine Reece-Trapp. Að lokum minnist Eyþór tveggja höfðingja sem fallið hafa frá á síðustu mánuðum, þeirra Smára Ólasonar og Hauks Guðlaugssonar.“

EFNISSKRÁIN

Robert Schumann (1810-1856)
Úr „Studien für den Pedalflügel - Sechs Stücke in kanonischer Form“ Op. 56 (1845):
I: Nicht zu schnell

Johann Sebastian Bach (1685-1750)
Úr „Dritter Teil der Clavier Übung“ (1739):
Kyrie, Gott Vater in Ewigkeit, BWV 669

Joseph Haydn (1732-1809)
Útsetning fyrir orgel: Haukur Guðlaugsson (1931-2024):
Úr „Missa brevis Sancti Joannes de Deo, Hob. XXII:7“ (1775):
Benedictus

Johann Ulrich Steigleder (1593-1635)
Úr „Vierzig Variationen über Vater Unser im Himmelreich“ (1626/1627):
6. Coral im Baẞ. 4. Voc.
7. 4 vocum Coral im Discant
8. Coral im Baẞ. 3. Voc.

Smári Ólason (1946-2023)
Ég byrja reisu mín - Forspil (2014)

Petr Eben (1929-2007)
Úr „Job for organ“ (1987):
IV: Longing for death

Ghislaine Reece-Trapp (1992)
In Paradisum (2022)

Hildur Guðnadóttir (1982)
Úr „Joker“ (2019)
Bathroom Dance

  • Eyþór Ingi Jónsson lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 1998, undir leiðsögn Harðar Áskelssonar, Fríðu Lárusdóttur, Smára Ólasonar o.fl. Á árunum 1999-2007 nam hann við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð, fyrst við kirkjutónlistardeild og síðar við konsertorganistadeild. Aðal orgelkennari hans var prof. Hans-Ola Ericsson.
  • Kórstjórnarprófessorinn var Erik Westberg. Hann hefur sótt meistarakúrsa og einkatíma hjá mörgum af þekktustu orgelleikurum og kórstjórum samtímans. Eyþór kennir orgelspuna, orgelleik, kórstjórn og orgelfræði við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands.
  • Hann heldur líka reglulega námskeið og fyrirlestra. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika hérlendis og erlendis. Einnig hefur hann leikið með fjölda innlendra og erlendra tónlistarmanna, bæði á tónleikum og í upptökum.
  • Fyrsta sólóplata Eyþórs, Septim, kom út árið 2021.
  • Eyþór hefur bæði leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Verkefnahljómsveit Michael Jón Clarke sem og stjórnað báðum hljómsveitunum.
  • Hann stjórnaði líka Barokksveit Hólastiftis á meðan hún starfaði. Eyþór starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og stjórnandi kammerkórsins Hymnodia. Eyþór hefur einbeitt sér annars vegar að flutningi tónlistar frá 17. öld og hinsvegar nútímatónlistar og spuna, bæði fyrir orgel og kór.
  • Eyþór hefur pantað og/eða frumflutt tugi tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld. Bæði fyrir orgel og kór. Hann er einn af forkólfum Barokksmiðju Hólastiftis. Eyþór var bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012
  • Með tónlistarstörfum sinnir Eyþór nóttúruljósmyndun af miklum krafti. Hann hefur haldið 3 einkasýningar og tekið þátt í nokkrum samsýningum