Litríkur lokasprettur Baraflokksins
Tónlistarhátíðin Eyrarrokk var haldin í fjórða skipti um helgina á Verkstæðinu við Strandgötu. Uppselt var í fyrsta skipti og þótti hátíðin takast afar vel; stemningin var að minnsta kosti upp á tíu þegar Akureyri.net leit við á laugardagskvöldið og fylgdist með lokasprettinum; þegar akureyrska hljómsveitin Baraflokkurinn sló síðasta tón kvöldsins og líklega þann síðasta í sögu flokksins.
Baraflokkurinn var síðasta hljómsveit á svið og var það vel við hæfi. „Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta verði lokadans hljómsveitarinnar, en við höfum spilað nokkuð óreglulega á tónleikum frá 2012 og þá helst á Græna hattinum okkur til mikillar ánægju,“ segir gítarleikarinn Þór Freysson við Akureyri.net fyrir skömmu.
Ásgeir Jónsson, stofnandi hljómsveitarinnar og söngvari, lést fyrir tveimur árum langt fyrir aldur fram en Þór og félagar fengu Magna Ásgeirsson til þess að taka að sér sönginn í þetta sinn.
Það voru Hvanndalsbræðurnir Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson og Sumarliði Helgason sem stofnuðu til Eyrarrokks árið 2021 ásamt Helga Gunnlaugssyni eiganda Verkstæðisins og þremenningarnir eru enn í brúnni.
Baraflokkurinn – lokaútgáfa, eftir að síðasti tónninn var sleginn á Eyrarrokki á laugardaginn. Frá vinstri: „gestirnir“ Einar Rúnarsson og Björgvin Ploder, sem báðir voru í Sniglabandinu, Þór Freysson, Magni Ásgeirsson, Sigfús Óttarsson, Baldvin H. Sigurðsson, Jón Arnar Freysson og Gunnar Sigurbjörnsson hljóðmaður. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Hátíðin er óhagnaðardrifin, eins og það heitir á fínu máli. Rögnvaldi og Sumarliða þótti vanta tónlistarhátíð eins og þessa í bæinn og héldu því af stað út í óvissuna. Þeir sögðu á dögunum að mikil vinna færi í að skipuleggja viðburðinn og á hverju ári spyrðu þeir sjálfa sig hvers vegna þeir væru eiginlega að standa í þessu! „Svo þegar helgin rennur upp þá man maður það,“ sagði Rögnvaldur þá og augljóst var á laugardagskvöldið að svar þeirra félaga við eigin spurningu var hið sama og fyrr.