Fara í efni
Menning

Litrík matarboð og eitursvalir kettir

Unnur Stella hefur komið nálægt ýmsum skemmtilegum verkefnum. Hún skreytti t.d salernin á veitingastaðnum Teríunni á Akureyri með eigin verkum áður en staðurinn opnaði síðasta sumar. Mynd: Sindri Swan

Unnur Stella Níelsdóttir er akureyrsk listakona sem vakið hefur athygli fyrir skemmtileg og litrík málverk. Hún málar undir nafninu StartStudio en nafnið ætti fólk að leggja á minnið því miðað við vöxt hennar undanfarið er hún bara rétt að byrja sinn listræna feril.

Sýning á verkum StartStudio stendur nú yfir á bókasafni Háskólans á Akureyri en þar sýnir Unnur Stella þróun sína og vöxt sem listakonu síðastliðin fimm ár. „Mér finnst eiginlega best að koma myndunum sem fyrst frá mér, annars mála ég bara yfir þær. En ég er kannski að læra það með þessari sýningu að það er allt í lagi að eiga verk sem eru ekki lengur í mínum stíl, af því að ég er búin að breytast sem listamaður,” segir Unnur Stella þar sem hún gengur um sýninguna sem hún kallar Fimm skref með blaðamanni. 

Sýning á verkum Unnar Stellu stendur nú yfir á bókasafni Háskólans á Akureyri. Akrýlmálverk af bóhemískum köttum og borðhaldi eru áberandi á sýningunni sem sýnir vöxt hennar og þróun á undanförnum árum. Mynd: SNÆ

Mikilvægt að vera stoltur af sér

Sýningin liðast um veggi bókasafnsins í réttri tímaröð. Fyrstu verkin eru frá því í covid og þau síðustu nýlega máluð. Á sýningunni má augljóslega sjá hvernig stíll og tækni Unnar Stellu hefur þróast og breyst. „Þetta er eiginlega hugmynd frá mömmu, að sýna það sem ég hef verið að fást við undanfarin ár, í stað þess að setja upp sýningu með nýjum verkum, sem hefði kannski verið eðlilegra. Þessi sýning er líka góð fyrir sjálfa mig því stundum er maður fljótur að gleyma. Það er alveg gott að minna sig á að maður er að standa sig vel og það er mikilvægt að vera stoltur af sjálfum sér,” segir Unnur Stella en sýningin er hennar þriðja einkasýning á innan við ári. Fyrri sýningarnar voru í Deiglunni og í Núllið gallerí í Reykjavík.

Unnur Stella, málar undir nafninu StartStudio, er með vinnustofu í JMJ húsinu á Akureyri sem hún nýtir þegar hún er í bænum.  Þessa stundina er hún búsett í Hollandi. Mynd: Jóndís Hinriksdóttir

Eitursvalir kettir

Unnur Stella, sem er 24 ára, sinnir listinni á vinnustofu StartStudio í JMJ húsinu á Akureyri. Það er að segja þegar hún er á landinu en á undanförnum árum hefur hún dvalið mikið erlendis við nám og listsköpun; í Malmö í Svíþjóð, í New Orleans i Bandaríkjunum, í Flórens á Ítalíu og í Marbella á Spáni. Áhrif frá þessum stöðum sjást vel í verkunum á sýningunni. Til dæmis eru hattar og kúrekaskór áberandi í málverkum StartStudio eftir dvölina í Bandaríkjunum.

Það eru tvenns konar verk sem eru hvað mest áberandi á sýningunni og stela athyglinni. Annars vegar stór málverk af eitursvölum köttum og hinsvegar myndir af borðhaldi. „Ég fór að mála kettina eftir að ég bjó í New Orleans en þar neyddist ég til að búa með þremur köttum hjá tengdafjölskyldu. Ég er engin kattarkona, bara alls engin. Í minni fjölskyldu gáfum við alltaf fuglunum og þoldum ekki ketti,” segir Unnur Stella en viðurkennir að skoðun hennar á köttum breyttist þegar leið á sambúðina og enduðu kettirnir á striganum hjá henni, oft með vín í hönd, sultuslakir í kúrekastígvélum.

Áðurnefndir kettir hafa reyndar dúkkað upp víðar. Þeir hafa selst vel sem eftirprentanir og þá lifnuðu þeir einnig við sem vegglistaverk á veitingastaðnum Teríunni á Akureyri þegar Unnur Stella tók að sér að skreyta salernin fyrir opnun staðarins síðasta sumar. Á veggjum Teríunnar eru líka fleiri verk eftir Unni Stellu sem gefa staðnum skemmtilegt útlit.

Ég fór að mála kettina eftir að ég bjó í New Orleans en þar neyddist ég til að búa með þremur köttum hjá tengdafjölskyldu. Ég er engin kattarkona, bara alls engin. Í minni fjölskyldu gáfum við alltaf fuglunum og þoldum ekki ketti.

Kettir í kúrekastígvélum hafa verið áberandi viðfangsefni í verkum StartStudio. Þessi mynd prýðir salernin á veitingastaðnum Teríunni. Mynd: Sindri Swan

Borðhald og vín

Hitt mótífið sem verið hefur áberandi í myndum StartStudio er borðhald. Á þeim myndunum eru aldrei neinar manneskjur aðeins matur, vín, borð, stólar, leirtau og annað sem tilheyrir matarboðum eða borðhaldi, og oft virðist jafnvel ýmislegt hafa gengið á við borðið. „Borðhald er búið að vera svo lengi í umhverfi mínu. Ég hef lengi unnið í veitingabransanum og hef mjög gaman af matargerð, víni og matarboðum. Ástríða mín liggur í veitingageiranum og mér finnst mjög gaman að þjóna, að ekki sé talað um að vinna á barnum þegar allt er á floti,” segir Unnur Stella. Borðhaldsmyndir StartStudio hafa ratað enn víðar en verkin af köttunum því á síðasta ári málaði hún myndina „Skína” fyrir samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins (endurhæfing fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein). Myndin var prentuð á sundtöskur og spil sem seld voru í Nettó til styrktar Ljósinu en alls skilaði átakið sjö milljónum króna. Þá hefur eftirprent af borðhaldsmynd eftir StartStudio í tilefni af Bleikum október farið víða en hluti af söluandvirði myndanna rann til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Unnur Stella hefur undanfarið verið að mála töluvert á diska. 

Litrík verk með húmor

Þegar Unnur Stella er beðin um að lýsa stílnum sínum nefnir hún að það sé yfirleitt húmor í verkunum hennar og þá séu þau alltaf í lit. „Ég hef prófað að mála í svarthvítu en ég bara get það ekki, það er bara ekki ég. Ég er litríkari og glaðlegri. Þá fæ ég svolítið hlutina á heilann og kann þá ekki að hætta. Í covid málaði ég t.d bara plöntur, potta og andlit. Svo byrjaði ég að mála ketti og hélt bara áfram með þá. En ég veit ég hef fleira í mér og það er annað tímabil framundan. Ég er nú þegar komin þangað í hausnum,“ segir Unnur Stella.

 

  • Nánar verður rætt við Unni Stellu á morgun, m.a. um það hvernig hún áttaði sig á því að listin væri hennar farvegur í lífinu og hvaða verkefni eru framundan.