Fara í efni
Menning

Listrænt, akureyrskt handbragð á nýju biskupskápunni

Biskupskápan nýja og akureyrsku listakonurnar tvær, Kristín Gunnlaugsdóttir, til vinstri, og Þórdís Jónsdóttir.

Guðrún Karls Helgudóttir skrýddist nýrri, afskaplega fallegri kápu – biskupskápu – þegar hún var vígð til embættis biskups Íslands í Hallgrímskirkju sunnudaginn 1. september. Þrjár konur gerðu kápuna og svo skemmtilega vill til að tvær þeirra eru Akureyringar, Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona og Þórdís Jónsdóttir útsaumslistakona.

Kápuna hannaði Steinunn Sigurðardóttir, þjóðfræðingur og hönnuður, Kristín teiknaði skreytingar á bak og boðunga og Þórdís saumaði út.

Þetta er fyrsta biskupskápan sem saumuð er á þessari öld fyrir íslenskan biskup, jafnframt fyrsta kápan sem saumuð er sérstaklega á konu – og sú fyrsta sem gerð er af konum; „hönnuð, útfærð og saumuð af konum, fyrir konu,“ segir á vef Þjóðkirkjunnar.

Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, lengst til hægri í biskupskápunni fallegu. Forsetahjónin, Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason, ganga þarna til altaris í Hallgrímskirkju við vígsluathöfnina 1. september, og við hlið biskups er Sara Nässelqvist, prestur í sænsku kirkjunni, sem tók þátt í athöfninni. Mynd af vef Þjóðkirkjunnar.

Sumarið og vonin

„Þegar Guðrún kom að máli við mig í vor sá ég strax fyrir mér að kápan yrði blá en nefndi það þó ekki þá,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir í samtali við Akureyri.net. Síðar kom í ljós að Guðrún hafði einnig bláan lit í huga sem gladdi Kristínu mjög. „Blár er litur himinsins á björtum sumardegi; táknrænn litur himins, trúarlífs og tignar,“ segir Kristín. „Það er nærtækt að tengja bláan lit við íslenskt hugarfar og sögu; við höfum svo mikla þörf fyrir bláan himin sem við tengjum sumri og voninni og í raun öllu sem gerir okkur kleift að búa á þessu landi.“

Kristín nefnir að henni þyki það mjög viðeigandi hjá nýjum biskup „að nota tímamótin og marka sín spor, að festa sig í sessi innan stofnunarinnar, á þann hátt að láta sauma nýja kápu.“

Guðrún lét listakonurnar alveg um að hanna og skreyta kápuna eins og þær töldu best, segir Kristín, og það hafi sér þótt mikils virði. „Hún sagðist mjög ánægð með útkomuna og við höfum fengið fádæma góðar undirtektir. Það er einstaklega vel um kápuna talað, hamingjuóskir og viðbrögð hafa streymt inn og það er gaman að finna fyrir því.“

Þórdís Jónsdóttir útsaumslistakona. - Hún lyfti teikningum mínum á það svið sem ég hef sjálf ekki náð – af miklu listfengi, segir Kristín Gunnlaugsdóttir.

Tenging við náttúruna

Kristín ákvað að hafa skreytingarnar þjóðlegar og trúarlegar, látlausar og fínlegar og að móðir náttúra kæmi við sögu. „Ég vildi að kvenlegar tónar yrðu í kápunni, hún er sniðin að kvenlíkamanum, en mér er líka annt um að karlmaður geti borið hana vel.“

Á boðungum kápunnar og baki eru saumaðar úr ull og gullþræði íslenskar birkigreinar með vorgrænum brumhnöppum og nýútsprungnum laufum.

Listakonunni fannst við hæfi að blanda nútímanum inn í táknmálið. „Ákveðin hefð er fyrir því hvaða tákn eru á biskupskápum þótt fjölbreytileikinn sé töluverður en ég veit ekki til þess að notaðar hafi verið birkigreinar á íslenskum kápum. Mér fannst það nútímalegt viðhorf að tengja beint við náttúruna,“ segir Kristín.

„Ég hugsaði með mér hvaða íslensk jurt eða tré kæmu til greina og birkið kom fljótt upp í hugann vegna þess að það aðlagar sig svo vel að íslensku veðurfari. Við metum það þó sennilega ekki alltaf að verðleikum, ef til vill vegna þess að það vex í allar áttir og verður kræklótt,“ segir hún. „Önnur ástæða fyrir því að ég valdi birkið er að þegar það brumar á vorin verður liturinn svo dásamlegur og ekki síður lyktin. Það er nýtt upphaf!“ segir listakonan og lætur hugann reika nokkra áratugi aftur í tímann, til æskuáranna á Akureyri.

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona. „Á Akureyri ber birkið oft við himin, maður sér birkigreinar blómgast, brumið opnast og finnur þessa dásamlegu lykt.“

Akureyrskt vor!

„Ég veit ekki hversu oft maður horfði upp í bláan himin sem barn og unglingur; á leiðinni í skólann eða á góðri stund í Lystigarðinum. Á Akureyri ber birkið oft við himin, maður sér birkigreinar blómgast, brumið opnast og finnur þessa dásamlegu lykt.“

Varla þarf að velkjast í vafa um hvaðan hugmynd Kristínar að lit og skreytingu biskupskápunnar er upphaflega sprottin!

Kristín ákvað teikna kross á biskupskápunni einnig úr birki – „þannig að birkigreinar legðust í látlaust krossmark.“ 

Á vef Þjóðkirkjunnar segir: „Efst á baki kápunnar og nemur við hjarta þess sem kápuna ber, er saumaður gylltur kross, tákn hins kristna manns, tákn fórnar, upprisu og skilyrðislauss kærleika. Krossinn er handsaumaður í formi trjágreina.“ 

Þar segir einnig: „Neðst á baki kápunnar logar hinn gyllti logi heilags anda sem teygir sig upp og glæðir með krafti sínum allt líf.“

Kona á Akureyri ...

Eftir að Kristín hafði teiknað skreytingarnar var komið að því sauma þær í kápuna og henni þótti afar ánægjulegt þegar hönnuðurinn, Steinunn Sigurðardóttir, nefndi útsaumslistakonu á Akureyri sem hún hefði áhuga á að fá til starfans. „Hún sagðist mjög hrifin af púðum sem konan á Akureyri gerði og ég vissi að sjálfsögðu strax við hverja hún átti; ömmur okkar Þórdísar Jónsdóttur umgengust mikið, við erum fjarskyldar og þekkjumst vel,“ segir Kristín.

„Þórdís er mjög reynd á sínu sviði og gerði afar vel. Hún hefur það umfram mig að hafa saumað stanslaust út og aðlagaði sig að því að vinna með ullarþráð og gull, hún leggur þráðinn fallega og saumar af smekkvísi og reynslu. Hún hafði sjálfstæði við verkið, bar undir mig hvernig það skyldi útfært og ég var alltaf sammála því sem hún lagði til.“ 

Kristín segir samstarf þeirra Steinunnar líka hafa verið mjög gott. „Hún er mikil fagmanneskja, býr yfir mikilli þekkingu og fágun og ég lærði mikið af henni; ég held við höfum notið samstarfsins hvor við aðra.“

Miklir hæfileikar og listræn fágun

Kristin segir Þórdísi eiga mikið í fegurð kápunnar. „Ég gef henni það að hafa lyft teikningum mínum á það svið sem ég hef sjálf ekki náð – af miklu listfengi. Hún sat yfir þessu verkefni allan ágústmánuð, ég held hún hafi varla farið út úr húsi. Ég er stolt af frændseminni við Þórdísi og handbragði hennar. Hún er hógvær og vinnur verk sínu í hljóði eins og margar útsaumskonur en það sem hún gerir krefst mikilla hæfileika og listrænar fágunar. Hver einasti maður á að eiga púða frá Þórdísi að mínu mati – sjálf á ég 18 púða eftir hana!“