Listasumar: Myndrænar hendur iðnaðarmanna
Áhugaverð ljósmyndasýning, af höndum iðnaðarmanna, verður opnuð á föstudaginn á svæðinu við Sundlaug Akureyrar. Sýningin, sem er hluti af Listasumri á Akureyri, stendur út júlímánuð og er eðlilega opin á sama tíma og sundlaugin.
„Á síðustu áratugum hafa flestar iðngreinar tekið stakkaskiptum hvað varðar umhverfi vinnufólks og öryggi á vinnustað. Þær iðngreinar sem varða uppbyggingu mannvirkja hafa ávallt verið líkamlega krefjandi og langar okkur að minna á að þetta er fólk sem fórnar bæði sál og líkama til uppbyggingar á landinu okkar,“ segir í kynningu á sýningunni.
Verkefnið sýnir lófa og handarbök iðnaðarmanna. „Hendur eru helsta skynfæri og tól mannskepnunar og okkur langar að vekja áhorfendur til umhugsunar um það sem gerist „á bak við tjöldin“ í rekstri nútíma samfélags. Eftir 6 ár sem blikksmiður upplifði Aron Freyr Ólason með eigin höndum það álag og breytingu sem áttu sér stað í starfi sem iðnaðarmaður og var það kveikjan að hugmyndinni. Sýningin er samstarfsverkefni Arons Freyrs og Sindra Swans, listamanns.“