Listasafnið sýnir verk héðan og þaðan á Hlíð
Myndlistin teygir anga sína um allt samfélagið og fyrir helgi opnaði Listasafnið á Akureyri nýja samsýningu ólíkra listamanna á Hjúkrunarheimilinu Hlíð.
„Það er nýbreytni hjá Listasafninu á Akureyri að vinna heildstæðar sýningar frá grunni og setja upp utan safnsins. Með því móti er starfsemin útvíkkuð og safnaeignin gerð aðgengileg öllum aldurshópum í ólíku samhengi. Sýningin á Hlíð er unnin í þeim anda. Sýningarstjórar eru Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
„Árið 2023 munu Listasafnið og Hjúkrunarheimilið Hlíð vinna saman að því að fræða og gleðja íbúa, starfsfólk og gesti Hlíðar með tveimur myndlistarsýningum og leiðsögnum þeim tengdum. Sýningunum er ætlað að viðhalda menningarlegri tengingu íbúa við myndlistarsögu bæjarins, vekja upp minningar og samræðugrundvöll um myndlist og samfélagið.“
Á sýningunni Hér og þar I sem opnuð var síðastliðinn föstudag eru verk eftir listamennina Jón Laxdal, Roj Friberg og Þorvald Þorsteinsson en allir hafa þeir unnið með bókmenntir og texta í verkum sínum. Á seinni sýningunni, Hér og þar II, verða verk sem sýna náttúru og mannlíf, eftir listamennina Einar Helgason, Guðmund Ármann Sigurjónsson og Tryggva Ólafsson. Sú sýning verður opnuð 9. september á þessu ári.
Sýningin er í matsalnum á Hlíð og er opin alla virka daga frá kl. 8-15.
Fleiri myndir frá opnunni má sjá hér