Limrur og léttar hugleiðingar
Þorsteinn G. Þorsteinsson er höfundur nýrrar bókar, Limrur og léttar hugleiðingar. „Við þekkjum hann betur undir nafninu Steini rjúpa og fyrir hreint makalausar fuglaveðurspár sem urðu mörgum umtalsefni og skemmtiefni og komu út vikulega á árabilinu frá 1995 uns samstarfsfélagi Þorsteins um Fuglaspána, menntaskólakennarinn Gísli Jónsson, lést í nóvember 2001. En bókina helgar Þorsteinn minningu Gísla,“ segir í tilkynningu frá útgefanda, forlaginu Völuspá.
„Hér sýnir Þorsteinn á sér nýja hlið þar sem hann bregður á leik í hinu leikandi formi limrunnar,“ segir í tilkynningunni. „Hann sagði margt ljótt / svo engum var rótt, kveður Þorsteinn. Sjálfum var honum ei rótt, þvert á móti vakti hver og ein limra með honum hugsanir sem hann festi jafnóðum á blað og fylgja hverri limru. Og þar er farið um víðan völl en ávallt í stuttum og hnitmiðuðum texta. Þar segir til dæmis af nautinu sem fór í gegnum eldhúsið hjá henni Matthildi á Bergi í Hrísey, hjátrú gamla vinnumannsins úr Vopnafirði og Cream soda.“
Í Limrum og léttum hugleiðingum eru alls 99 limrur og textar í óbundnu máli sem þó tengist sjaldan limrunni á nokkurn hátt, tekur höfundur fram. „Það bregður sem sagt ýmsu fyrir í þessum textum,“ segir Þorsteinn G. Þorsteinsson um leið og hann þakkar fyrir lesturinn og segir: „Njóttu vel.“