Fara í efni
Menning

Leiklesa nýja leikgerð af Íslandsklukkunni

Leikhópurinn Elefant leikles valda kafla úr nýrri leikgerð á Íslandsklukkunni í menningarhúsinu Hofi á morgun, þriðjudaginn 30. nóvember klukkan 13.

Leikhópurinn, í samvinnu við Þjóðleikhúsið, vinnur að því að skrifa nýja leikgerð úr þessari merku bók Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljan Laxness. Elefant samanstendur af ungum leikurum sem eiga það sameiginlegt að vera af blönduðum uppruna, segir í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar. „Hópurinn skoðar verkið frá nýju og fersku sjónarhorni með það að markmiði að færa Íslandsklukkuna nýrri kynslóð Íslendinga.“

Spurt er: „Hvað merkir að vera Íslendingur í dag? Hver erfir þjóðararfinn? Hvað er klukkan? Hver erum við og hvert stefnum við?“

Verkið, sem enn er í þróun, verður leiklesið í leikstjórn Þorsteins Bachman. „Hópurinn kallar eftir samtali við þjóðina um það hvað sé að vera Íslendingur og framtíðarhorfur Íslendinga af blönduðum uppruna, og það verður hluti af endanlegri leikgerð.“

Leiklesturinn tekur um 90 mínútur og svo er áhorfendum boðið upp á samtal í kjölfarið.

Stefnt er á að frumsýna verkið í samstarf við Þjóðleikhúsið veturinn 2022-2023 en vinnan við nýju leikgerðina hófst vorið 2020. Leikhópinn skipa Aldís Amah Hamilton, Davíð Þór Katrínarson, Jónmundur Grétarsson og María Thelma Smáradóttir. Leikstjóri er Þorsteinn Bachmann. Handritshöfundar eru Bjartur Örn Bachmann og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir í samstarfi við leikhópinn Elefant.

Öll velkomin á meðan húsrúm og sóttvarnarreglur leyfa. Munið hraðprófin.