Fara í efni
Menning

Leikfélagið hefur áfram afnot af Freyvangi

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar og Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins hafa skrifað undir nýjan samning um afnot leikfélagsins af félagsheimilinu Freyvangi um óákveðinn tíma. Samningurinn var undirritaður á sviðinu, rétt fyrir sýningu á Gaukshreiðrinu hjá leikfélaginu rótgróna. Árið 2022 var sambærilegur samningur undirritaður, til tveggja ára. 

Undanfarin tvö ár hefur leikfélagið því séð um húsnæðið og getað nýtt það í margt fleira en bara leiklistina. „Að hafa öruggt húsnæði er mjög mikilvægt fyrir starfsemi áhugaleikfélags,“ segir Jóhanna. „Og fyrir Freyvangsleikhúsið að fá að vera öruggt í Freyvangi er gríðarlega gott þar sem það er búið að vera hérna í rúmlega 60 ár.“

„Við erum með húsið í almennri útleigu yfir sumartímann og eru þar hinar ýmsu veislur og ættarmót,“ segir Jóhanna. „Yfir vetrartímann erum við náttúrulega með leiksýningar, en auk þess hafa verið margvíslegir viðburðir. Sem dæmi má nefna námskeið, tónleika, bingó, böll og bíósýningar.“