Leikfélag Hörgdæla æfir nýtt íslenskt verk
Leikfélag Hörgdæla æfir leiksýninguna Í fylgd með fullorðnum af fullum krafti á Melum þessa dagana. Leikritið er skrifað af Pétri Guðjónssyni sem jafnframt leikstýrir verkinu. Fyrirhuguð frumsýning er 10. mars.
„Verkið byggir á lögum og textum Bjartmars Guðlaugssonar og er glænýtt þannig að um alheimsfrumflutning er að ræða. Lög Bjartmars eru mörgum kunn og Hörgdælir lofa miklu fjöri og skemmtun. 17 leikarar munu stíga á svið, sumir alvanir en aðrir að stíga sín fyrstu skref en þar fyrir utan er fjöldi mans sem kemur að uppsetningunni. Sýningar eru fyrirhugaðar í mars og apríl,“ segir í tilkynningu frá leikfélaginu.
„Í fylgd með fullorðnum er lífleg sýning sem segir frá gleði og sorgum persóna sem finna má í textum Bjartmars Guðlaugssonar og skipar tónlist hans ríkan sess í sýningunni.
Leikfélag Hörgdæla og fyrirrennar þess setja reglulega upp leiksýningar á Melum og hafa getið sér gott orð þannig að það verður enginn svikinn af heimsókn á Mela. Eins og áður sagði er fyrirhuguð frumsýning 10. mars en miðasala fer fram á Tix.is og hefst mánuði fyrr eða 10. febrúar.“