Fara í efni
Menning

Kvennakórinn Embla minnist Edith Piaf

Edith Piaf og Roar Kvam, stjórnandi kvennakórsins Emblu.

Minning goðsagnarinnar, söngstjörnunnar og manneskjunnar Edith Piaf (1915-1963) verður heiðruð á tónleikum kvennakórsins Emblu í Hofi á sunnudaginn. „Piaf var ekki aðeins vinsælasta söngkona Frakklands á sínum tíma heldur þekkt um allan heim. Hún söng um nóttina, eymdina og óhamingjuna en líka hamingjuna, frelsið og ástina,“ segir í tilkynningu frá kórnum.

Tónleikarnir verða í Hömrum og hefjast kl. 17.00. Einsöngvari er Erla Dóra Vogler og átta valinkunnir hljóðfæraleikarar leika með undir stjórn Roars Kvam.

„Piaf átti óvenjulega ævi; hún ólst upp meðal vændiskvenna og glæpamanna í skuggalegum hverfum Parísar en komst á stóra svið helstu tónleikahúsa heimsins þar sem hún heillaði áheyrendur með sérstakri rödd og einstakri túlkun,“ segir í tilkynningu Emblu. Edith söng á götum úti áður en hún náði 10 ára aldri til að safna fyrir mat vegna veikinda föður síns, á unglingsárunum söng hún í húsagörðum Parísar en árið 1935 var hún uppgötvuð þar sem hún kom fram á veitingahúsinu Gernys og var jafnan kölluð La Môme Piaf – Litli spörfuglinn.

„Ómenguð framkoma og seiðandi rödd hennar heilluðu bæði almenning og yfirstétt og varð Edith fræg á einni nóttu. Orðspor hennar barst um heiminn eftir einkatónleika sem hún hélt árið 1937, sögur um smáu konuna með stóru röddina bárust um heim allan og í Bandaríkjunum kynntist hún bæði Marlene Dietrich og Marilyn Monroe. Það sem mestu skipti fyrir Edith á þessum tíma var að nú var hún ekki lengur fátæk.“

„Nei, ég sé ekki eftir neinu“

„Edith Piaf var sterk kona sem var stolt af fortíð sinni og uppruna og átti í fjölmörgum litríkum ástarsamböndum sem höfðu mikil áhrif á hana og tónlistarflutning hennar. Hún ánetjaðist lyfjum og áfengi, barðist við meinsemd í brisi, lifrarsjúkdóma og stöðug innanmein. Árið 1960 sló hún í gegn í síðasta sinn með laginu fræga Non, je ne regrette rien – Nei, ég sé ekki eftir neinu; á tónleikunum söng ekki sú sterka kona sem komið hafði fram á sviðið áður heldur ringluð og máttlaus hryggðarmynd sem hrundi niður á sviðinu. Áheyrendur fögnuðu henni þó ákaft. Edith Piaf lést 1963 og varla hafa jafnmargir fylgt nokkrum til grafar í Frakklandi en henni.“

Piaf er ekki ókunnug Íslendingum, söngleikir um hana voru settir upp hjá Leikfélagi Akureyrar 1985 og í Þjóðleikhúsinu 2004 við miklar vinsældir. Piaf var þekkt fyrir lög eins og La vie en rose (1946), Hymne à l'amour (1949), Milord (1959) og Non, je ne regrette rien (1960). „Mörg fleiri af hennar þekktustu lögum verða flutt á þessari ógleymanlegu stund.“

Tónleikarnir á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar

https://www.mak.is/is/vidburdir/edith-piaf