Fara í efni
Menning

Kristín Sóley vill sniðganga Eurovision

Kristín Sóley Björnsdóttir, nýkjörin í stjórn Rúv ohf., vill að Ísland sniðgangi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ef Ísrael fær að vera með.

Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar, sem í gær var kjörin í stjórn Ríkisútvarpsins ohf., vill að stofnunin sniðgangi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ef Ísrael fær að taka þátt. Þetta kemur fram í umfjöllun mbl.is um nýkjörna stjórn stofnunarinnar.

Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. var kjörin af Alþingi í gær og þar eiga Akureyringar tvo fulltrúa, einn í aðalstjórn og einn varamann. Kristín Sóley Björnsdóttir kemur ný inn í stjórnina sem aðalmaður og á meðal varamanna er Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og fyrrum þingkona Norðausturkjördæmis. Báðar eru fulltrúar meirihlutans á Alþingi í stjórninni.

Fréttavefur Morgunblaðsins birti í gærkvöld yfirlit um afstöðu flestra þeirra sem sitja í hinni nýju stjórn til þátttöku Íslands í söngvakeppninni með það í huga hvort Ísrael fær að taka þátt eða ekki. Í umfjölluninni kemur hins vegar fram að óvíst sé hvort ný stjórn geti tekið þá ákvörðun að sniðganga keppnina í ár, úr því sem komið er. 

Kristín Sóley er afdráttarlaus í sinni afstöðu til þátttöku Ríkisútvarpsins í keppninni. Í umfjöllun mbl.is er haft eftir henni: „Ég vil að við sniðgöng­um keppn­ina ef Ísra­el verður ekki vísað úr henni,“ en segir það jafnframt ömurlega leiðinlegt þar sem nú þegar sé búið að velja verðuga fulltrúa Íslands. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur sagt það skrýtið og óeðlilegt að Ísrael fái að vera með í keppninni.

Áhorfendur mega veifa fána Palestínu

Í framhaldi af efasemdum sem fram hafa komið hjá fulltrúum sjónvarpsstöðva sem taka þátt í keppninni, meðal annars frá Íslandi, Slóvakíu og Spáni, sendi Samband evrópsrka sjónvarpsstöðva, EBU, frá sér yfirlýsingu þar sem tekin eru af öll tvímæli um þátttöku Ísraels í keppninni. 

EBU vísar til þess að ákvörðun um þátttöku Ísraels byggi á reglum keppninnar. Umsókn um þátttöku fulltrúa Ísraels hafi borist í tæka tíð og hún hafi uppfyllt skilyrði keppninnar. Ísrael fái því að taka þátt. Þá vísar EBU til þess að samtökin séu samsíða öðrum alþjóðlegum samtökum sem hafa á svipaðan hátt haldið sig við það að leyfa þátttöku Ísraela í meiriháttar keppnum að svo stöddu.
 
Áhorfendur mega taka með sér löglega fána inn í höllina í Basel, þar á meðal fána Palestínu, en keppendum leyfist hins vegar eingöngu að veifa sínum eigin þjóðfána þegar þeir eru í opinberu rými keppninnar.