Raddir, myndir og minningar
Kristín Aðalsteinsdóttir, fyrrverandi prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur sent frá sér tvær bækur á síðustu vikum; aðra í eigin nafni en hina vann hún í félagi við Jón Hjartarson, fyrrverandi fræðslustjóra og æskuvin eiginmanns Kristínar, Innbæingsins Hallgríms Indriðasonar. Saman standa þau að bókinni Raddir – annir og efri ár en hina kallar Kristín Myndir og minningar.
Í bók þeirra Kristínar og Jóns segja 14 konur og 14 karlar frá. „Bókinni er ætlað að miðla fróðleik um það hvernig er að eldast; hvernig fólk lifir á efri árum og væntingar þess til lífsins. En það talar líka um æsku sína og sumir fara nokkrum orðum um störf sín. Kaflarnir eru mjög ólíkir sem helgast ekki síst af því að þarna er fólk úr ýmsum stéttum og úr ólíkum landshlutum. Fólk með mismunandi bakgrunn, menntun og uppeldisaðstæður. Það er sannarlega óhætt að segja að fjallað sé um fjölbreytileika lífsins í þessari bók,“ segir Kristín í samtali við Akureyri.net.
Sú yngsta sem segir frá í bókinni er 68 ára en sá elsti 104 ára. Þau Jón tóku ýmist viðtöl við fólkið eða það skrifaði kaflana sjálft.
Kristín segist ekki geta annað en verið ánægð með viðtökurnar. „Ég fékk 120 bækur frá Skruddu, sem gefur bók okkar Jóns út, og þær seldust allar á tveimur dögum - hreint ótrúlegt!“ segir Kristín. Hina bókina gefur hún út sjálf.
Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir, og Guðlaug Hermannsdóttir, kennari, eru meðal þeirra sem segja frá í bókinni, Raddir - annir og efri ár.
Meðal þeirra sem segja frá er fólk búsett á Akureyri og nágrenni eða tengt svæðinu: Margrét Heinreksdóttir, blaðamaður og lögfræðingur, Konný Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur, kennararnir Minnie Eggertsdóttir, Birgir Sveinbjörnsson og Guðlaug Hermannsdóttir, Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur, Sigurður Jóhannesson, fyrrverandi aðalfulltrúi KEA og Ingibjörg Bjarnadóttir á Gnúpufulli. Hún er næst elsti viðmælandinn, 94 ára.
Myndir og minningar
Fljótlega eftir að Kristín hætti störfum í Háskólanum á Akureyri dreif hún í því að skrifa bókina Innbær. Húsin og fólkið sem kom út 2017. Þá hafði hún samband við fjölda íbúa þessa elsta bæjarhluta Akureyrar og það ýmist skrifaði eða hún tók viðtöl. Þá tók hún allar ljósmyndir sem prýða bókina.
Nú endurtekur hún leikinn að nokkru leyti. „Hér birtast 60 minningar, 30 konur segja frá og 30 karlar. Ég sendi fólki bréf og bað það að segja frá einni minningu sem kæmi upp í hugann; hún gæti verið góð, furðuleg, fyndin, átakanleg, ótrúleg ... Þær eru ólíkar enda er fólkið ólíkt,“ segir Kristín.
Hún þekkti fæsta þeirra sem segja frá. „Þetta er aðallega fólk sem ég þekkti ekki. Einu sinni var ég stödd á pósthúsinu, þar voru einhverjir að rífast en maður sem var þarna staddur gerðist sáttasemjari. Þetta var Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ, mér fannst hann svo afgerandi jákvæður að ég hugsaði með mér að ég yrði að senda honum bréf, þótt ég þekkti hann ekki, og hann er í bókinni. Á þennan hátt, meðal annars, valdi ég fólkið.“
Allt fólkið sem fjallað er um í bókinni býr á Akureyri eða næsta nágrenni, „nema bróðir minn sem sem býr úti í Svíþjóð. Ég leyfði honum að vera með,“ segir Kristín og hlær. Hún segir frá bróður sínum í formála bókarinnar.
Þar segir Kristín meðal annars: „Minning frá 27. júní 1950. Ég stóð á stól við gluggann í stofunni heima og horfði út. „Þarna kemur ljósmóðirin með bróður þinn í tösku,“ sagði amma Vilborg. Sama dag var pabbi uppi á þaki, eitthvað að bauka. Ég stóð í grasinu fyrir neðan og horfði upp til hans. „Ég er að gera gat á þakið svo storkurinn komist inn í húsið með nýja barnið,“ sagði pabbi.
Flestir skrifuðu minningarnar sjálfir en Kristín tók nokkur viðtöl. Eins og í Innbæjarbókinni tekur hún allar ljósmyndir.
Sigurður Sveinn Sigurðsson, íshokkíkappi og fasteignasali, og Fríða Pétursdóttir, kennari, koma við sögu í bók Kristínar, Myndir og minningar.