Fara í efni
Menning

KR fyrsti gestur í Bestu-veislu KA

Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur verið besti maður KA undanfarin ár og verður áfram í lykilhlutverki. Hér er hann í bikarúrslitaleiknum gegn Víkingi í fyrrasumar - þegar KA varð bikarmeistari í fyrsta skipti. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Loksins! Langþráð stund rennur upp kl. 16.15 í dag þegar flautað verður til fyrsta leiks KA-manna á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Þar með hefst alvaran og spennandi verður að sjá hvernig KA-menn og aðrir leikmenn Bestu deildarinnar koma undan lengsta undirbúningstímabili í heimi.

Það eru KR-ingar sem koma í heimsókn á Greifavöllinn í dag. Liðin mættust þrisvar í deildinni í fyrrasumar. Jafntefli verð í báðum leikjum hinnar hefðbundnu deildarkeppni, 1:1 á Greifavelli KA og 2:2 á Meistaravöllum KR-inga en þegar liðin mættust í neðri hlutanum á lokasprettinum unnu KR-ingar öruggan sigur, 4:0. KA-menn eiga því aldeilis harma að hefna.

Færeyski landsliðsmaðurinn Jóan Símun Edmundsson sem lék með KA síðari hluta sumars 2023 er kominn aftur og verður mikill liðsstyrkur. Mjög góður leikmaður þar á ferð.

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi KA síðan í fyrra, mjög öflugir leikmenn eru horfnir á braut og fróðlegt verður að sjá hvernig þeir sem komnir eru í staðinn standa sig. KA-mönnum er ekki spáð sérlega góðu gengi; í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í Bestu deild er þeim spáð áttunda sæti og bæði fotbolti.net og Morgunblaðið spá KA-liðinu níunda sæti.

KA-menn stefna vitaskuld hærra en þeim er spáð. „Í grunn­inn þá held ég að mark­miðið inn­an hóps­ins sé að enda í efri hlut­an­um. Það fer ekk­ert á milli mála,“ sagði Ívar Örn Árna­son, fyr­irliði bikar­meist­ara KA, í samtali við mbl.is á dögunum.
 
KA-menn voru frábærir sumarið 2022 og urðu í öðru sæti Bestu deildarinnar. Árið eftir voru þeir í sjöunda sæti eftir 22 leiki og héldu sínu striki í keppni neðstu sex liðanna; enduðu í sjöunda sæti deildarinnar.
 
Í fyrra urðu KA-menn aftur í sjöunda sæti Bestu deildarinnar en hápunktur sumarsins var úrslitaleikur bikarkeppninnar þar sem KA sigraði Víking 2:0 og varð þar með bikarmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins
 
 

Viðar Örn Kjartansson var lengi í gang í fyrra eftir að hann kom til KA en hafði gert sex mörk í deildinni þegar upp var staðið. Mikilvægt verður fyrir KA að hann standi sig vel í sumar.

„Við reyn­um alltaf að gera aðeins bet­ur en í fyrra. En tíma­bilið í fyrra var ekki það slæmt. Við erum ríkj­andi bikar­meist­ar­ar og ég held að fót­ur­inn verði ekk­ert tek­inn af bens­ín­gjöf­inni í bik­ar­keppn­inni núna í ár, ekk­ert frek­ar en síðustu ár,“ sagði Ívar Örn við mbl.is. Við vilj­um festa okk­ur í sessi í því að vera ákveðið bikarlið. Sömu­leiðis er það að gera vel í Evr­ópu. Við erum að fara í þrjár keppn­ir í ár og það tek­ur mikla orku.“

Spurður af mbl.is hvort hann teldi að lið kæmu til með að van­meta KA vegna brös­ug­legs geng­is í vet­ur sagði Ívar Örn:

„Já, ég held það al­veg að vissu leyti. En ég held líka að lið geri sér al­veg grein fyr­ir því að kjarn­inn í þess­um hópi er bú­inn að vera sam­an síðan alla­vega 2016. Hryggsúl­an er mjög góð svona í grunn­inn. Breidd­in er kannski ekki mik­il en við erum enn þá með mjög gott lið. Ég held að við höf­um sýnt það í bik­ar­keppn­inni í fyrra að við get­um gefið öll­um liðum í þess­ari deild góðan leik þegar við erum á okk­ar besta degi.“

 

Komnir

  • Jóan Símun Edmundsson frá N-Makedóníu
  • Jonathan Rasheed frá Svíþjóð (meiddst og verður frá út tímabilið)
  • William Tönning frá Svíþjóð
  • Guðjón Ernir Hrafnkelsson frá ÍBV
  • Ingimar Torbjörnsson Stöle frá FH (var þar í láni frá KA)
  • Bjarki Fannar Helgason keyptur frá Hetti/Hugin (var lánaður til baka og leikur fyrir austan í sumar)

Farnir

  • Daníel Hafsteinsson í Víking
  • Sveinn Margeir Hauksson í Víking
  • Elfar Árni Aðalsteinsson í Völsung
  • Harley Willard á Selfoss
  • Kristijan Jajalo til Austurríkis
  • Darko Bulatovic til Svartfjallalands

Sveinn Margeir Hauksson, til vinstri, og Daníel Hafsteinsson eru horfnir á braut; báðir sömdu við Víking og Daníel hefur verið öflugur þar á bæ  á undirbúningstímabilinu. Sveinn Margeir stundar háskólanám í Los Angeles í Bandaríkjunum og leikur með liði skólans, en óvíst er hvort og þá hvenær hann kemur til liðs við Víkinga.

Hvað sem öllum spám líður hlakka KA-menn að sjálfsögðu til sumarsins, jafnt leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og stuðningsmenn. Ástæða er til að hvetja alla gula og bláa til að fjölmenna á völlinn í sumar og hvetja KA-strákana til dáða. Af nógu verður að taka í deild og bikarkeppninni auk þess sem liðið tekur þátt í Evrópukeppni á nýjan leik.