Fara í efni
Menning

Komið að kveðjustund hjá Benedikt búálfi

Benedikt búálfur og fylgifiskar hans allir kveðja Akureyringa senn; síðustu sýningar á þessum gríðarlega vinsæla fjölsyldusöngleik Leikfélags Akureyrar verða um næstu helgi. Sýningin sló í gegn og verða sýningar í Samkomuhúsinu orðnar um 70 þegar yfir lýkur.

Leikarinn Árni Beinteinn, sem leikur sjálfan Benedikt búálf, segir erfitt að kveðja sýninguna. „Hópurinn er algjörlega einstakur og stemningin góð allt sýningartímabilið. Ég er búinn að njóta hverrar mínútu og það er eiginlega hálf óraunverulegt að við séum að kveðja þetta,“ segir Árni í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar. Hann segir aðsóknina hafa farið fram úr björtustu vonum. „Búálfurinn hefur þó ekki sungið sitt síðasta, upptaka af sýningunni verður bráðum gerð aðgengileg og svo er aldrei að vita nema Benedikt dúkki upp á ýmsum skemmtunum í náinni framtíð.“

Þrjár sýningar verða um helgina, tvær á laugardeginum og ein á sunnudeginum. Miðasala á mak.is