Fara í efni
Menning

Klaufar spila í fyrsta skipti á Græna hattinum

Hljómsveitin Klaufar verður á ferð um Norðurland í vikunni og kemur í fyrsta skipti fram á Græna hattinum föstudagskvöldið 2. maí.

„Við hlökkum mikið til að spila á Græna hattinum, þessi staður hefur mikinn sjarma og alltaf gaman að koma til þessa fallega bæjar, Akureyrar. Haukur Tryggvason og hans góða fólk á Græna hattinum á heiður skilinn fyrir sitt öfluga starf sem þau hafa haldið út svo lengi og þar með auðgað menningar- og tónlistarlíf Akureyringa,“ segir Friðrik Sturluson, bassaleikari, einn Klaufanna.

Hljómsveitin leikur á Gráni Bistro á Sauðarkróki fimmtudaginn 1. maí, og loks í „júróvisjon- og hvalaskoðunarbænum Húsavík 3. maí, á Gamla Bauk,“ eins og segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.

„Ég held ég geti mælt fyrir munn okkar allra þegar ég segi að Akureyri eigi sérstakan stað í hjarta okkar, þaðan eru svo margar góðar minningar, og mörg ógleymanleg böllin sem við spiluðum á hér í gamla daga, allir okkar, á hvaða stað sem það var; Sjallinn gamli góði, 1929, sem var magnaður staður, H-hundrað og hvað þeir hétu, allir þessir staðir,“ segir Friðrik. „Það var alltaf eins og maður væri að koma til útlanda þegar maður kom til Akureyrar, þessi fallegi bær, fólkið yndislegt og alltaf mjög gestrisið. Við fengum alltaf höfðinglegar móttökur og veðrið í ofanálag var auðvitað alltaf gott og stemmingin eftir því.“

Hljómsveitin Klaufar var stofnuð árið 2006, spilaði í fyrstu hresst kántrýskotið popp, mest ábreiðulög. Sveitin hefur starfað linnulítið síðan en tekið nokkrum breytingum. Tveir stofnenda eru enn með, Birgir Nielsen trommari og Guðmundur Annas Árnason, söngvari og gítarleikari, en síðar bættust við Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og stálgítarleikari – sumir segja einn fremsti stál-gítarleikari Norðurlanda og þótt víðar væri leitað – margreyndur í bransanum m.a. með Start og Gildrunni, og Friðrik Sturluson, þekktastur sem meðlimur Sálarinnar hans Jóns míns.