Fara í efni
Menning

Kjarval á spássíu og eyddir fætur eftir teik

Enn segir af bókum. Í gær, eftir að hafa rekið inn nefið á markað Félags íslenskra bókaútgefenda á Óseyri, var gluggað í Jagúar skáldsins eftir Óskar Magnússon, þar sem hann segir gamansögur af Nóbelsskáldinu Halldóri Kiljan Laxness. Í dag koma magnaðir listamenn einnig við sögu, báðir úr efstu hillu eins og stundum er sagt, hvor á sínu sviði: Jóhannes Kjarval og Þórarinn Eldjárn.

_ _ _

Út á spássíuna – teikningar og pár
Jóhannes S. Kjarval
Crymogea 2015
1,4 kíló
Umsjón með útgáfu: Kristín G. Guðnadóttir og Æsa Sigurjónsdóttir

Allir Íslendingar kannast (vonandi) við Kjarval.

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885 - 1972) er þekktastur sem málari stórbrotinna landslagsmynda og skapari skáldlegra fantasíuheima, eins og segir í inngangi að þessari óvenjulegu en skemmtilegu bók, þar sem lesandinn kynnist annarri hlið á meistaranum en þeirri hefðbundnu. „Það er á færra vitorði að hann var framúrskarandi teiknari, rithöfundur og ljóðskáld sem lét eftir sig umfangsmikið safn af teikningum, skissum, sendibréfum og handritum,“ segir þar einnig.

Nefnt er að margir hafi bent á þá áráttu listamannsins að varðveita allt og ekkert, og hann hafi skrifað og teiknað á nánast allt sem hönd á festi. Halldór Laxness lýsti þessu svo: „Kjarval dreifir kring um sig listaverkum af óþrotlegri auðlegð, hvar sem hann er staddur, án þess að hirða hvort það efni, sem af tilviljun hefur orðið miðill hans í svip, er hæft til að varðveita myndina; þannig eru sum snilldarverk hans gerð á lítilfjörleg vasabókarblöð, pappírspentudúka, salernapappír og þvílíkt efni óvandað.“

Hér er skemmtilegt dæmi úr bókinni:

Þetta fuglabréf sendi ég mínum hágöfuga vini MeistaraGuðmundi Davíðssyni – sem einu sinni var á Þingvöllumásamt alúðar kveðjur og hugheilar óskir um að althefði átt að geta verið sem bestEða rjettara sagt líklegast fuglabréf.Jóhanns Sveinsson Kjarval ojæja

Það má nú segja að þetta eru nú skrítnir fuglar.Bestu árnaðaróskir þjer og þínum / ljóða brjéf

 

Í bókinni segir: „Hér birtist í fyrsta sinn úrval þessa hversdagsefnis listamannsins, verk sem opna glufur inn í einkaheim sem fram til þessa hefur verið almenningi lítt kunnur. Í huga hans var texti ekki ofar mynd, eða mynd útfærsla á texta, heldur var samruni skriftar og teikningar aðferð til að sprengja upp flötinn og afnema mörk myndlistar og ritlistar.“

Áfram er haldið: „Við sjáum Kjarval ljóslifandi að störfum með penna eða pensil á lofti. Hann teiknar og skrifar, yrkir ljóð, kastar fram tækifærisvísu, ritar sendibréf, risssar upp hugmyndir og hripar skilaboð á umslag eða pappírssnifsi með bleki, blýanti eða tússi, ætíð af styrk og sköpunarkrafti sem á sér vart sinn líka í íslenskri listasögu.“

Auk allra teikninga Kjarvals er í bókinni fróðleg ritgerð Kristínar G. Guðnadóttur, Listamaður fólksins, með undirtitilinn Samskipti Kjarvals við fólkið í landinu í ljósi heimilda sem varðveittar eru í teikninga- og handritasafni hans

_ _ _

Kvæðasafn
Þórarinn Eldjárn
Vaka-Helgafell 2022
963 grömm

Þórarinn Eldjárn stökk fram á ritvöllinn árið 1974 með ljóðabók sem fékk hið látlausa heiti Kvæði. Vel má reyndar vera að Þórarinn, sem virkar rólyndismaður, hafi læðst fram á völlinn, ég man það ekki og má einu gilda, en rithöfundurinn hefur altjent ekki slegið slöku við síðan.

Ljóðin tóku að hrannast upp, smásögur urðu til, skáldsögur og fleira. Umfjöllunarefnið allt milli himins og jarðar, ískrandi húmor oft áberandi en alvaran gjarnan einnig í grenndinni. Ekki er ofsagt að bókin sem hér um ræðir, Kvæðasafn, hafi, að geyma „mikinn skáldskaparfjársjóð“ eins og þar segir: allar útgefnar ljóðabækur Þórarins 2022, átta talsins, og úrval úr fimm barnaljóðabókum, hátt á fjórða hundrað kvæða alls.

Án efa eru mörg dæmi um ljóð sem lifa lengur með lesanda en önnur og hér skal nefnt eitt dæmi úr Erindi, sem kom út 1979. Í fyrsta lagi er sagan ljóslifandi, í annan stað er ljóðið drepfyndið og í þriðja lagi verkjar ónefndan Akureyring enn í hnén þegar ljóðið kemur upp í hugann, hálfum fimmta áratug eftir að hann las það fyrst ...

Teik

Og bomsur mínar minntu á sléttan fjörð,
minnstu hrukku var ei þar að sjá.
Vetur snjór og frost og freðin jörð
og föngulegur bíll sem rennur hjá.

Stuðarinn með stálsins fasta svip,
stekk ég fram og næ mér þar í tak.
Áfram siglir þýtt hið þurra skip,
þigg ég far í laumi réttvið bak.

Eins og margir þekkja, sem stunduðu þann glannalega leik að vetri til að hanga aftan í bílum – að teika – er mesta frelsið „að mega sleppa hvenær sem ég vil“ eins og Þórarinn kemst einmitt að orði í einu erindinu. En hættan var sú að blautur vettlingur frysi fastur við stuðarann og þá voru góð ráð dýr. Síðasta erindið er svohljóðandi:

Hann æðir með mig eftir grýtti tröð,
eitri hóstar vélin, slöpp og rám,
og stansar loks við ókunna endastöð –
eyddir verða fætur uppað hnjám.

 

Húmorinn er eitt aðalsmerki Þórarins eins og áður var vikið að. Þetta ljóð úr bókinni Hættir og mörk frá 2005 er ljómandi gott dæmi:

Misrétti

Að jafnrétti náist er veruleg von umþví vekur það furðu að enner bærinn svo fullur af fallegum konumsem fengu sér ljóta menn.