Fara í efni
Menning

Kennarar á svæðinu gefa út plötur

Tónlistin sefur ekki þótt fátt sé um fjölmenna tónleika þessi misserin. Tónlistarmenn hafa margir verið afskaplega iðnir við að senda viðburði út á vef – streyma tónleikum stórum og smáum og ýmislegt hefur líka borist út á landsbyggðina frá höfuðborginni á sjónvarpsstöðvunum, bæði klassík og popp.

Kennarar tónlistarskóla hér á svæðinu hafa líka verið venju fremur iðnir við að gefa út tónlist, ýmist á áþreifanlegu formi eins og geisladiskum eða á streymisveitum. Lítum á nokkur dæmi.

Fyrir stuttu kom út platan Peysur og Parruk, aðallega þjóðlagakennd tónlist tríósins Gadhus Morhua, sem er latínuheitið á okkar alkunna þorski. Þarna eru á ferð Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sem syngur og leikur á barokkselló, Eyjólfur Eyjólfsson söngvari sem leikur á langspil og flautu og Björg Níelsdóttir sem syngur líka og leikur á langspil. Á plötunni eru alls 18 lög af fjölbreyttu tagi, mest íslensk þjóðlög í nýjum útsetningum en einnig er hoppað aftur í aldir og leikin verk frá útlöndum nær og fjær ef svo má segja. Platan var tekin upp í Hofi á Akureyri og upptökustjóri var Haukur Pálmason.

Stöllurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir eru engir nýgræðingar í plötuheiminum, en fyrir jólin 2020 sendu þær frá sér plötuna Þráðurinn hvíti. Það sem er öðru fremur merkilegt við þá plötu er að þar eru 9 prýðileg ný íslensk sönglög eftir tónskáldin Jónas Sen, Sigurð Flosason, Harald V. Sveinbjörnsson, Kristjönu Stefánsdóttur og svo þær sjálfar, Helgu og Þórhildi. Þær tóku plötuna upp í Akureyrarkirkju undir stjórn Hauks Pálmasonar.

Helga Kvam hefur ekki látið þar við sitja heldur gaf hún út píanóplötu með 6 lögum. Dalir, og lögin nefnast Dalur 1-6. Helga segir sjálf að í vetrarkulda sé gott að hlusta á Dali og upplifa sumar og sólaryl. Það kemur að sjálfu sér ekki á óvart að upptökumaðurinn var Haukur Pálmason. Dalir eru til dæmis á Spotify.

Hugarró er plata þar sem Margrét Árnadóttir syngur við fjölbreyttan strengjaleik Kristjáns Edelstein hugljúf íslensk sönglög, sem undirstrika heiti plötunnar, ró og frið, enda er hugmyndin að baki verkinu hugleiðsla og bæn. Á plötunni eru alls 11 bæna- og sálmalög. Hluti ágóðans af sölu plötunnar rennnur til Pietasamtakanna á Akureyri.

Áður hefur verið sagt frá firnagóðri djassbræðingsplötu kvartetts Ludvigs Kára, Rákir, og má lesa umsögn um hana hér. Hún var tekin upp í Hofi og Haukur margnefndur hélt um takkana og tækin.

Sverrir Páll