Kardemommubærinn frumsýndur í Freyvangi
Frumsýning Freyvangsleikhússins á Kardemommubænum verður næsta föstudag, 4. mars. Alls 26 leikarar verða á sviði ásamt fjögurra manna hljómsveit en tæplega 60 manns koma að sýningunni. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson.
Kardemommubærinn er eftir Thorbjørn Egner. Á heimasíðu Freyvangsleikhússins kemur fram að verkið hafi í upphafi verið skrifað fyrir barnatíma í norska ríkisútvarpinu, þar sem það var flutt í nokkrum þáttum. Árið 1955 kom sagan svo út á bók með teikningum eftir Egner sjálfan. Tónlistin í verkinu er einnig eftir Egner, að einu lagi undanskildu; en það er söngur Sørensen rakara eftir Bjarne Amdahl.
Ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan, Bastían bæjarfógeti, Soffía frænka, Kamilla litla og Tobías í turninum eru flestum okkar kunnug og birtast nú fersk á fjölum Freyvangsleikhússins.
Spennan að magnast
Í samtali við Akureyri.net sagði Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins, að spennan væri að magnast því aðeins örfáir dagar eru í frumsýningu. Og bætir við: „Þetta er alltaf eins og það er, þegar maður er í áhugaleikhúsi, það er allt að gerast í einu!“
Uppselt er á frumsýningu en hægt er að kaupa miða á tix.is, við innganginn og í síma Freyvangsleikhússins 857 5598. Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingu á dögunum.
Ræningjarnir þrír, Kasper, Jesper og Jónatan.