Fara í efni
Menning

Kammerkór Norðurlands með þrenna tónleika

Kammerkór Norðurlands og stjórnandinn Guðmundur Óli Gunnarsson. Mynd af Facebook síðu kórsins.

Kammerkór Norðurlands heldur tónleika undir nafninu Sound of Silence dagana á þremur stöðum um næstu helgi. Þeir verða sem hér segir:

  • Þorgeirskirkja laugardag 5. nóv. kl. 14:00
  • Berg á Dalvík laugardag 5. nóv. kl. 20:00
  • Akureyrarkirkja sunnudag 6. nóv. kl. 16:00

Efnisskrá kórsins að þessu sinni er bandarísk kórtónlist og kennir þar ýmissa grasa. Í tilkynningu segir: „Flutt verða nokkur af glæsilegustu nýrri kórverkum höfuðtónskálda Bandaríkjanna. Einnig eru á efnisskránni þjóðlög, trúarleg lög og þekkt popplög í nýjum og afar metnaðarfullum útsetningum. Meðal lagahöfunda má nefna Paul Simon, Eric Whitacre, Jake Runestad, Billy Joel, Ola Gjeilo, Réne Clausen og Morten Lauridsen.“

Stjórnandi Kammerkórs Norðurlands er sem fyrr Guðmundur Óli Gunnarsson en kórfélagar eru flestir tónlistarmenntaðir og/eða atvinnufólk í tónlist og koma víða að af Norðurlandi. Kórinn hefur frá stofnun haft að markmiði að flytja nýja íslenska kórtónlist (raunar með ýmsum öðrum verkefnum) og gefið út þrjá hljómdiska, síðast árið 2020, en þar er að finna ljóð Davíðs Stefánssonar við ný og eldri íslensk lög.

En að þessu sinni er stefnan tekin til Bandaríkja Norður-Ameríku, eins og það er orðað í tilkynningunni.

Verkefnið er styrkt af Tónlistarsjóði.