Kaktus með „Opið kall“ á tíu ára afmælisári

Listhópurinn Kaktus heldur upp á tíu ára afmælið sitt í ár og leitar eftir tillögum um sýningar, tónleika, samkomur, uppákomur og aðra viðburði á árinu.
Kaktus er listhópur sem rekur sitt eigið listarými í Listagilinu og er markmið hópsins að bjóða upp á fjölbreytta menningarstarfsemi úr ýmsum listgreinum og styðja við grasrót menningar í bænum. Frá því í aprí 2015 hefur hópurinn staðið að yfir 500 listviðburðum þar sem listafólk viðsvegar að af landinu og erlendis frá hefur haldið sýningar, tónleika og staðið fyrir fjölbreyttri listsköpun undir merkjum Kaktuss. Þá hafa fjölmargir listamenn stigið þar sín fyrstu spor að því er fram kemur í tilkynningu hópsins.
Hópurinn viðhefur nú það sem kallað er Opið kall 2025 og eru áhugasamir beðnir um að senda umsóknir á kaktusdidsomeart@gmail.com. Fram kemur í kallinu að umsókninni þurfi að fylgja, stuttur texti um fyrirhugaða sýningu eða viðburð, texti eða listi yfir það sem umsækjandi hefur gert áður, nokkrar myndir af verkum eða fyrri verkum/sýningum/viðburðum og óskir um mánuði eða daga fyrir viðburð. Umsóknarfrestur er til og með 17. febrúar.
„Kaktus hefur sérstaklega áhuga á þeim sem ekki hafa komið fram áður eða eru reynsluminni í sýningahaldi. Þeir sem ekki hafa þróað með sér CV eða portfolio eru því hvattir til að sækja um, en þurfa engu að síður að kynna sig og hugmyndina með öðrum hætti, t.d. með kynningarbréfi (e. artist statement). Þeir sem eru með hugmyndir að viðburði sem er í mótun og vantar aðstoð eru einnig hvattir til að hafa samband,“ segir einnig í tilkynningu hópsins.