Jónína Björg með myndlistarsýningu í Toronto
Jónína Björg Helgadóttir myndlistamaður á Akureyri og annar eiganda Majó í Laxdalshúsi heldur einkasýningu þessa dagana í kanadísku borginni Toronto. Sýningin var opnuð 12. október og stendur til 23. október.
Jónína segir opnunina hafa verið mjög vel heppnaða, boðið var upp á tvö tónlistaratriði og gestir voru fjölmargir, m.a. fólk úr íslenska samfélaginu í Toronto. Ein þeirra er söngkonan Sigrún Stella frá Akureyri.
Listamaðurinn, lengst til vinstri, ávarpi gesti þegar myndlistarsýningin var opnuð.
Á sýningunni eru verk sem Jónína málaði síðustu þrjú ár, í Laxdalshúsi og á fyrrum vinnustofu sinni í Hafnarstræti 90. Þetta eru litrík málverk og dúkristur, með konuna í fyrirrúmi ásamt tengingum við náttúru, undirmeðvitundina, vatn og sund. „Fyrir mér eru verkin spegill á undirmeðvitund mína. Litir, form og svipbrigði koma fram eins og mér dettur í hug án þess að ég ritskoði mig mikið. Svo þegar svona sýning kemur saman og ég sé öll verkin í kringum mig finnst mér eins og ég standi í mínum eigin huga og þá sé ég hvað er búið að vera að brjótast þar um,“ segir Jónína Björg. „Ég vil að verkin séu hreinskilin og blátt áfram, en jafnframt má þar finna ákveðinn húmor sem kemur fram á sama hispurslausa hátt og allar hinar tilfinningarnar."
Sýningin stendur til 23. þessa mánaðar sem fyrr segir. Eftir það fer Jónína heim til Akureyrar, en hún hefur verið úti síðan sýningin var opnuð.
Jónína Björg og Reynir Saem sem á gestaverk á sýningunni. Reynir er íslenskur listamaður sem býr í Toronto.
Verkið Blíður sem er á sýningunni.
Þessi mynd Jónínu heitir Vaknar og er einnig á sýningunni í Toronto.