Jónborg – Jonna – er bæjarlistamaður
Jonna, Jónborg Sigurðardóttir, er bæjarlistamaður Akureyrar árið 2024. Þetta var tilkynnt í dag á Vorkomu Akureyrarbæjar, samkomu sem jafnan er haldin í Listasafninu á Akureyri sumardaginn fyrsta.
„Undanfarin ár hefur Jonna einbeitt sér að endurvinnslulistsköpun og haldið fjölmargar sýningar auk þess að taka þátt í samsýningum,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. „Ruslatunnur bæjarins hafa borið textílverk hennar og vakið mikla athygli vegfarenda og ferðamanna. Jonna hefur og setið í stjórn Myndlistarfélagsin en auk þess látið sig miklu varða alla aðra viðburði sem eiga sér stað í Listagilinu á Akureyri.“
Að þessu sinni sóttu níu einstaklingar um listamannalaun, sex karlmenn og þrjár konur. Í umsögn faghóps um viðurkenninguna segir meðal annars: „Við val á bæjarlistamanni horfðum við fyrst og fremst til þriggja meginþátta: þess sem listamaðurinn hefur unnið að á undanförnum árum, þeirra verkefna sem listamaðurinn ætlar sér að sinna á tímabilinu og auðga þar með menningarlíf bæjarins og þess að hann búi og starfi á Akureyri.“