Jón G. Breiðfjörð fer fyrir tónsmiðju í Hofi
Um helgina fer af stað spennandi tónsmiðja sem haldin er af Píeta samtökunum og Tónlistarskólanum á Akureyri í samstarfi við trommuleikarann Jón G. Breiðfjörð sem mun leiða smiðjuna.
Hugmyndin er að bjóða fólki upp á skapandi listasmiðju þar sem hver sem hefur áhuga er velkominn, að því er segir í tilkynningu. Þátttakendur munu hittast í æfingasölum tónlistarskólans í Hofi þrjár helgar í mars og apríl og sjóða saman tónleikadagskrá sem flutt verður 1. maí á Akureyri. Þátttaka er gjaldfrjáls. Á tónleikunum sjálfum verður gestum boðið upp á að styrkja Píeta samtökin.
„Tónlistarkunnátta er ekki skilyrði fyrir þátttöku og ekki er búið að ákveða hver dagskráin verður. Hópurinn sem myndast mun sjálfur annað hvort semja nýja tónlist eða ákveða hvaða tökulög skulu leikin á tónleikunum.“
50 hafa fengið aðstoða hjá Pieta
Á meðal þátttakenda í smiðjunni verður Birgir Örn Steinarsson, stundum kenndur við hljómsveitina Maus, sem starfar sem forstöðumaður fyrir Píeta samtökin á Norðurlandi.
Píeta samtökin eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum. Útibú samtakana á Akureyri var opnað síðasta sumar. Um er að ræða félagasamtök og heilbrigðisþjónustu með leyfi frá Landlækni sem býður þeim sem þjást af sjálfsvígshugsunum sem og aðstandendum upp á gjaldfrjálsa þjónustu. Frá því að Píeta samtökin opnuðu dyr sínar á Akureyri hafa rúmlega 50 manns fengið aðstoð.