Jólatöfrar frumsýndir í Hlöðunni Litla-Garði
Barnasýningin Jólatöfrar verður frumsýnd í Hlöðunni í Litla-Garði á Akureyri laugardaginn 11. desember. Um er að ræða sýningu fyrir yngstu kynslóðina þar sem töfrar jólanna vakna til lífsins með litríkum leik, söng og dansi. Þar verður skemmtilegum jólalögum sem allir ættu að þekkja fléttað saman í fallega sögu.
„Sagan segir frá Ellý sem er spennt fyrir jólunum, mest vegna gjafanna eins og flest börn á hennar aldri. Það sem hún þráir hvað allra heitast er að hitta jólasveininn og nóttina fyrir aðfangadag fer svo sannarlega allt á flug,“ segir Aníta Ísey Jónsdóttir, höfundur og leikstjóri Jólatöfra.
Hlöðunni á Akureyri verður breytt í lítið jólaland með jólamarkaði með allskyns fallegum munum. Kaffi, kakó og vöfflur verður til sölu og öll börn fá mandarínu frá jólasveininum að sýningu lokinni.
„Það getur orðið kalt svolítið í Hlöðunni svo við hvetjum fólk til þess að mæta klætt eftir veðri þrátt fyrir að setið verði inni,“ segir Aníta Ísey og bætir við að boðið verði upp á teppi svo fjölskyldur haft það notalegt á meðan á sýningunni stendur.
Sýningin verður sýnd tvær helgar í desember og er því takmarkaður fjöldi miða í boði. Leikarar og söngvarar í sýningunni eru þau Ívar Helgason, Jónína Björt Gunnarsdóttir og Jenný Lára Arnórsdóttir.