Jólakyrrð og friður á tónleikum Hymnodiu
Eyþór Ingi Jónsson verður við Hammondinn og Jón Þorsteinn Reynisson með harmonikuna á jólatónleikum Hymnodiu sem að venju fara fram 22. desember. Það er á fimmtudaginn og tónleikarnir hefjast kl. 21.00.
„Jólakyrrð og friður einkennir tónleikana sem fara fram í rökkvaðri Akureyrarkirkju við kertaljós. Það aldin út er sprungið er þema tónleikanna en þessi forni þýski jólasálmur verður fluttur við verk þriggja tónskálda, hið gamla alkunna eftir Praetorius en líka sjaldheyrt verk Jóns Leifs og loks seiðandi útgáfa eftir sænska tónskáldið Jan Sandström þar sem hljóðfærin eru látin „syngja“ lagið en kórinn „spilar“ undir,“ segir í tilkynningu.
„Á efnisskránni er líka Hugleiðing á jólum eftir Þorvald Örn Davíðsson, tónskáld og og kórstjóra, sem reyndar syngur með Hymnodiu á þessum tónleikum í afleysingu. Lagið samdi hann við ljóð föður síns sem vekur okkur til umhugsunar um gildi jólanna á viðsjárverðum tímum. Hymnodia lofar ósvikinni jólastemmningu með úrvali jólalaga, þekktra og minna þekktra og býður ykkur öll velkomin á tónleikana. Miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.“