Jóhannes Bjarki: „Bergmál náttúrunnar“
Nýtt lag frá Jóhannesi Bjarka Sigurðssyni kemur á allar helstu streymisveitur í dag, föstudaginn 14. júní. Jóhannes er búsettur á Akureyri en uppalinn á Hjalteyri. Lagið heitir „Bergmál náttúrunnar“ og er textinn saminn af Guðrúnu Maríu Jónsdóttur, eiginkonu Jóhannesar.
„Í mars 2023 kom Guðrún með ljóð sem hún hafði samið og spurði hvort ég gæti prófað að semja lag út frá ljóðinu. Mér fannst tilvalið að taka þeirri áskorun þar sem ég var forvitinn að vita hvort ég gæti samið lag á þann hátt,“ segir Jóhannes. „Hingað til, hafði ég alltaf samið lög með mínum eigin textum og oftast á ensku.“
Jóhannes var ekki lengi að semja og stuttu síðar var „Bergmál Náttúrunnar“ tilbúið. „Verða ekki bestu lögin til svona? Á stuttum tíma þar sem flæðið stöðvast ekki? Við Guðrún María töluðum svo í framhaldinu við Hallgrím Jónas Ómarsson varðandi upptökur, mix og masteringu auk þess að spila á gítara og búa til slagverk,“ segir Jóhannes.
„Við fengum Stefán Gunnarsson til að spila á bassa, Valgarð Óla Ómarsson til að sjá um slagverkið, Guðrúnu Arngrímsdóttur til að syngja bakraddir ásamt mér, Sigurð Sigurðsson til að spila á munnhörpu og svo fengum við Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur til að spila á selló. Við erum mjög ánægð með útkomuna og stolt af því að gefa þetta lag út saman.“
Jóhannes segir að texti Guðrúnar Maríu fjallar einfaldlega um það hversu heilandi það er að vera úti í fallegri náttúru Íslands, njóta kyrrðarinnar, hlusta á hljóðin frá fuglunum og tæma hugann af veraldlegum áhyggjum og hugsa um lífið og ástina í frelsi náttúrunnar.
HÉR er tengill á lagið á Spotify.