Ivan Mendez: Sankôra – Söngur hjartans
Tónlistarmaðurinn Ivan Mendez er þessa dagana að senda frá sér splunkunýja plötu, sem er þemaplata eða conseptplata, því henni fylgir heilmikið af öðrum tengdum listaverkum, meðal annars ný vefsíða www.apoablanka.com þar sem öll lögin eru ásamt hreyfimyndum og þar verða sögur sem tengjast lögunum, og bók, með upplýsingum um hvert tónverk, hugmyndina að baki því og byggingu alla og hvernig best er að njóta þess. Að auki er í bókinni gerð grein fyrir nýju tungumáli, sem Ivan hefur búið til meðfram tónsköpuninni, málinu lýst, bæði hljóðfræði og málfræði, og allir textarnir skýrðir nákvæmlega.
Á þessari plötu, sem heitir Sankôra, og mætti kalla Söng hjartans, er reyndar allt annars konar tónlist en Ivan Mendez hefur áður gefið út, þetta er hugleiðslutónlist og tilbeiðslutónlist þar sem gætir áhrifa frá mörgum ólíkum trúarbrögðum. Listamannsnafn Ivans í þessu verkefni er Apôa Blanka, Fjallið hvíta, og hann sendir brot af tónlistarandanum að ofan til jarðar með hverri sögu og hverju tónverki – lofsönginn um lífið. Sjálfur segist hann alinn upp sem barn í söfnuði hvítasunnumanna hér heima en kynntist síðan möntrum á Indlandi, medicintónlist í Suður-Ameríku og Kawalitónlist frá Pakistan, svo eitthvað sé nefnt, „og ég fann hjá mér þörf fyrir að sameina alla þessa fegurð sem lofsöng til lífsins. En ég fann fljótt að ef ég ætlaði að gera það á einhverju máli sem ég kann, íslensku, spænsku eða ensku, þá mundi það takmarka tjáninguna við það mál. Þess vegna fór samhliða tónlistarsköpuninni að verða til í munni mínum einhver hljóðagangur sem ekki voru hefðbundin orð en urðu smám saman að merkingarbærum orðum. Þegar þetta safnaðist saman var kominn orðaforði og framburður og málfræði sem ég tók saman og fylgir í bókinni.“
En af hverju Apôa Blanka? „Þetta nafn ætla ég að hafa sem höfundarnafn í þessari tegund tónlistar“, segir Ivan, „því þó að platan komi núna út og allt sem henni fylgir er þetta ekki endapunktur. Mig langar til að gera fleiri plötur í framhaldi af þessari og nota þá áhrif frá framandi slóðum þar sem ég kem til með að dvelja. Það er í framtíðinni. En ég held samt áfram að vera Ivan Mendez og búa til fallega popptónlist eins og ég hef gert hingað til. Nafnið Apôa Blanka er hins vegar þannig til komið að einhvern tíma þegar ég var í Suður-Ameríku fór ég á seremoníu hjá gömlum seiðkarli og í lokin spurði hann mig hvort hann mætti láta forfeður sína gefa mér nýtt nafn. Og þetta var það sem forfeður seiðkarlsins töldu hæfa mér best.“
Ivan var um sinn hársnyrtir en sneri sér alfarið að tónlist fyrir nokkrum árum, var í fyrsta hópnum sem fór í gegnum skapandi tónlistarbraut Tónlistarskólans á Akureyri og lokaverkefni hans þar voru plata og tónleikar í Hofi með hljómsveit hans Gringló. Síðan hefur hann gefið út stök lög á tónlistarveitum og plötuna FAR-FÜGL á síðasta ári. Hann stendur einnig að baki Hauststillu, tónlistarhátíð að haustlagi hér á Akureyri þar sem meginmarkmið hans er að gefa ungu og skapandi norðlensku tónlistarfólki færi á að koma fram á tónleikum. Hann hefur einnig verið fastur liður á Sólstöðutónleikum í Grímsey undanfarin ár.
Ivan Mendez er nú að ljúka þriggja ára framhaldsnámi í upptökum og hljóðblöndun við Catalyst Berlin tónlistarskólann, en platan Sankôra er lokaverkefnið. Hann segist hafa tekið hana alla upp sjálfur, að miklu leyti heima hjá sér, og leikið á öll hljóðfærin nema trommurnar. „Ég spilaði á allt sem var hérna í herberginu mínu, gítara, hljómborð, flautur og hristur og hvaðeina sem gefur frá sér hljóð auk þess að nýta mér tækni nútímans og hljóðfæri sem tölvurnar veita aðgang að.“ Hann segist að vísu hafa borið verkið undir marga vini sína og reynslubolta og fengið góð ráð. En þetta er sólóverkefni. Og Ivan vonast til að geta kynnt þetta verkefni sem víðast, hugsanlega í streymissambandi yfir höfin eða heima í Berlín, tengja það jafnvel kakóseremoníum og svo framvegis.
Myndlistin sem fylgir Sankôra er úr smiðju Tijas Design og fjallið á plötunni og vefnum er úr myndavél Stefáns Þórs Friðrikssonar. Hafsteinn Davíðsson léði Ivani trommuleik sinn og samvinnu í textagerð naut Ivan með Mathew Stefan Thomas. Svo tekur framtíðin við og vonandi sem allramest sköpun og vinna við upptökur og hljóðblöndun í Berlín.