Menning
Ítalskar perlur fluttar í Hofi á sunnudaginn
21.09.2022 kl. 13:00
Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir tónleikum næsta sunnudag, 25. september, klukkan 16.00 í Hömrum í Hofi. „Þar verða fluttar perlur ítalskrar tónlistar frá hinu svokallaða Bel Canto tímabili, t.d. Una furtiva lagrima eftir Donizetti og Nessun Dorma eftir Puccini svo eitthvað sé nefnt. Einnig má nefna hið gullfallega tríó Næturgalann eftir Ciardi,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Flytjendur eru Gissur Páll Gissurarson tenór, Pamela de Sensi flauta og Steingrímur Þórhallsson píanó.
Miðasala er á mak.is og tix.is og er 20% afsláttur fyrir félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar. Það eru Akureyrarbær, Rannís og Menningarfélag Akureyrar sem styrkja þessa tónleika.