Menning
Miðaldadagar á Gásum endurvaktir
21.07.2024 kl. 12:41
Viltu fara aftur til miðalda? Komdu þá við á Gásum í dag. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir
Miðaldadagar standa nú yfir á Gásum í Hörgársveit, skammt norðan Akureyrar, en hátíðin hefur verið endurvakin eftir nokkurra ára hlé. Það eru Gásverjar, félagsmenn í handverksfélaginu Handraðanum, sem hafa veg og vanda af undirbúningi hátíðarinnar og hafaí sjálfboðavinnu endurskapað stemminguna sem ríkti í Gásakaupstað á miðöldum.
Áður var það sjálfseignarstofnunin Gásakaupstaður sem stóð fyrir Miðaldadögum á Gásum en vegna fjárskorts lagðist hátíðin af.
Gestir geta m.a. kynnt sér ýmsar fornar listir, eldamennsku og forna siði. Til dæmis er hægt að fá rúnalestur og spreyta sig í bogfimi. Þá er handverksfólk á svæðinu sem er að selja varnig sinn.
Hátíðin stendur til kl. 16 í dag og er frítt inn á svæðið.