Fara í efni
Menning

Hús dagsins: Munkaþverá, íbúðarhús

Sunnarlega við neðstu rætur Staðarbyggðarfjalls stendur hið valinkunna höfuðból Munkaþverá. Eins og nafnið gefur til kynna dregur bærinn nafn sitt annars vegar af munkum og hins vegar Þverá efri, sem rennur í Eyjafjarðará þar steinsnar frá. Í daglegu tali margra er nafn bæjarins yfirfært á ána og jafnframt hið hrikalega hamragil, sem hún fellur um, kallað Munkaþverárgil. Á Munkaþverá stendur 180 ára gömul timburkirkja Þorsteins Daníelssonar frá Skipalóni en íbúðarhúsið, sem er tæpra 110 ára gamalt, er ekki síður áhugavert. Hér er um að ræða eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhús sveitanna framan Akureyrar. Frá Munkaþverá eru um 18 kílómetrar til Akureyrar og heimreið frá Eyjafjarðarbraut eystri um 400 metrar.

Jörðin Munkaþverá - örstutt söguágrip

Sögu Munkaþverárjarðarinnar má rekja til landnámsaldar en þar mun fyrstur hafa búið Ingjaldur sonur Helga magra. Helgi nam Eyjafjörð eins og hann lagði sig en gaf syni sínum land frá Arnarhváli að Þverá hinni efri. Reisti Ingjaldur hof mikið til heiðurs frjósemisgoðinu Frey. Hét bærinn framan af Þverá efri, en það segir sig sjálft að engir voru hér munkarnir fyrr en eftir kristnitöku. Kirkja mun hafa risið á Þverá efri fljótlega eftir kristnitöku árið 1000. Nokkuð öruggt mun teljast, að klaustur hafi verið stofnað að Þverá efri árið 1155. Mögulega hefur heitið Munkaþverá fest sig í sessi við, eða skömmu eftir, klausturstofnun. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem stóð fyrir stofnun klausturins. Unnt er að rekja eigenda- og ábúendatal Munkaþverár nánast óslitið þessi 1100 ár frá dögum Ingjalds Helgasonar til vorra daga. Í því samhengi skal benda á öndvegisritið Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Hér verður aðeins tæpt á nokkrum helstu nöfnum. Eftir daga Ingjalds Helgasonar tók sonur hans Eyjólfur, við jörðinni og tók Glúmur sonur Eyjólfs, við búinu af honum. Glúmur þessi varð þekktur undir nafninu Víga-Glúmur. Var það einmitt eftir vígaferli, sem Einar Eyjólfsson frá Möðruvöllum fékk dæmda hálfa Þverá af Víga-Glúmi í bætur, auk þess sem sá síðarnefndi var gerður brottrækur úr sveitinni. Hinn helminginn af Þverárlandi mun Einar hafa keypt af Grundarmönnum. Var Einar höfðingi mikill og löngum nefndur Einar Þveræingur. Helst er hans minnst í Íslandssögunni, fyrir að hindra að Ólafi Noregskonungi yrði gefin Grímsey. Það mun hafa verið seint á 10. öld, að Einar Eyjólfsson eignaðist Þverá og gekk hún í erfðir í nokkra liði meðal afkomenda hans í karllegg allt til miðrar 12. aldar, að jörðin var lögð undir klaustur. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem lagði klaustrinu til jörðina, en hana erfði hann eftir föður sinn, Gils Einarsson. Sá var langalangafabarn Einars Þveræings (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1467).

Á Munkaþverá var klaustur fram að siðaskiptum, eða í nær 400 ár, og þar voru ábótar jafnframt bústjórar. Munkaþverárklaustur var jafnan löngum vellauðugt, líkt og klaustrin voru almennt. Um miðja 15. öld átti Munkaþverárklaustur um 40 jarðir og á öndverðri sextándu öld voru þær um 60 (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:199). Byggingar hafa verið miklar í tíð klaustursins. Stórbruni varð á svæðinu 1429 sem eyddi nánast öllum byggingum en allt var endurbyggt. Eigandi Munkaþverár á árunum 1695-1725, Sveinn Torfason, endurbyggði ýmsar klausturbyggingar m.a. forna kirkju, sem fauk árið 1706. Núverandi kirkja, byggð 1844, leysti af hólmi kirkju Sveins frá upphafi 18. aldar. Árið 1772 eyddust margar byggingar í bruna, en síðustu eftirhreytur klausturbygginga munu hafa staðið fram yfir aldamótin 1800. En berum nú niður við næstu aldamót þar á eftir.

Íbúar og húsakostur á Munkaþverá í upphafi 20. aldar

Þegar 20. öldin gekk í garð, stóð torfbær á Munkaþverá, eins og á langflestum bæjum í hreppunum framan Akureyrar og víðast hvar í sveitum landsins. Munkaþverárbærinn var þó einn hinn stærsti og veglegasti í Öngulsstaðahreppi. Í honum voru a.m.k. sex rými sem flokkast gátu sem nokkurs konar stofur eða íveruherbergi (sbr. Jónas Rafnar 1975:123) og á honum voru fimm burstir. Þá voru tvær smærri burstir sambyggðar, þar sem voru smiðja og skemma. Munkaþverárbærinn var talinn vera frá 18. öld, mögulega hefur hluti hans verið byggður upp eftir brunann 1772, jafnvel fyrr. Hér má sjá mynd af gamla Munkaþverárbænum. Í upphafi 20. aldar var tvíbýlt á Munkaþverá. Þar bjuggu annars vegar þau Jón Jónsson hreppstjóri og kona hans Þórey Guðlaugsdóttir sem áttu 2/3 hluta jarðarinnar. Þau voru komin á efri ár, en tvö börn þeirra, Stefán og Þorgerður, bæði á fertugsaldri um 1900, bjuggu með þeim og hafa væntanlega annast búskapinn ásamt þeim. Eldri systir þeirra Stefáns og Þorgerðar var Kristína. Hún og maður hennar, Júlíus Hallgrímsson, áttu og bjuggu á þriðjungi jarðarinnar (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018). Júlíus sem hét fullu nafni Einar Júlíus Hallgrímsson, lést fyrir aldur fram árið 1902 en Kristína bjó áfram hér. Jón Jónsson lést vorið 1905 og Þórey Guðlaugsdóttir fjórum árum síðar. Við lát Þóreyjar móður sinnar eignaðist Stefán Jónsson alla jörðina, en leigði systur sinni þann hluta sem hún hafði búið á. Sama sumar kvæntist Stefán, Þóru Vilhjálmsdóttur frá Laufási í Grýtubakkahreppi, þann 27. júní 1909 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:1488). Fljótlega fóru þau að huga að endurnýjun húsakosts. Víða í eyfirskum sveitum viku torfbæirnir fyrir timburhúsum og á 2. áratug 20. aldar voru steinhús farin að rísa á Akureyri.

Eitt fyrsta stóra steinsteypuhús þar í bæ reistu þeir bræður Friðrik og Einar Einarsson við Strandgötu 45 árið 1914. Mun Friðrik, sem var beykir, hafa haft veg og vanda að hönnun byggingarinnar. Nokkru fyrr hafði eitt stærsta verksmiðjuhús (Gefjunarhúsið, rifið í ársbyrjun 2007) landsins risið á Gleráreyrum. Handan Eyjafjarðarár hafði Magnús á Grund reist mikið steinsteypt samkomu- og íbúðarhús úr steini árið 1910, í stað fyrirhugaðs timburhúss, sem brann til ösku á byggingarstigi. Var það um svipað leyti, sem Stefán Jónsson lagði drög að steinsteyptu húsi, ekki ósvipað að stærð og gerð og hús þeirra bræðra á Oddeyrinni.

Nýja íbúðarhúsið og mennirnir á bakvið það

Þann 15. júlí 1915 birtist eftirfarandi frétt í blaðinu Norðurlandi: „Steinhús mikið ætlar Stefán Jónsson óðalsbóndi á Munkaþverá að byggja á bæ sínum í sumar. Jóh. Kristjánsson byggingameistari stýrir verkinu og ættu bændur hér í firðinum að nota tækifærið og finna hann“ (án höf. 1915:1). Ætla mætti, að hér séu bændur fjarðarins hvattir til að leita til byggingameistarans og kynna sér þessa nýjung, sem steinhúsin voru, með það augnamiði, að reisa sér slík. En Jóhann Kristjánsson fékkst einmitt við ráðgjöf og húsahönnun vegna steinhúsabygginga bænda. Þá er einnig sá möguleiki, að þetta sé í og með atvinnuauglýsing: Menn sem áhuga hafi geti komið og lagt hönd á plóg við bygginguna. Samkvæmt Kristínu Jónsdóttur (2018, án bls.) komu margir bændur í sveitinni að byggingunni.

Stefán Jónsson fæddist í gamla bænum á Munkaþverá, þann 19. mars 1866. Stefán, sem nam við Möðruvallaskóla í Hörgárdal, árin 1883 – 86, hélt til Ameríku árið 1890 og dvaldist þar í fimm ár, nánar tiltekið í Grand Forks í Norður-Dakóta. Tveir eldri bræður höfðu flust þangað á upphafsárum Vesturferða, 1875, og ílengdust þar. Dvölin Vestra mun hafa haft mikil áhrif á hann að því leyti til, að hann var mjög framfarasinnaður og vildi tileinka sér nýja tækni og vinnubrögð og mun hafa haft mikið dálæti á amerískum búnaðarháttum. Var það einna helst heimssýningin mikla í Chicago árið 1893 sem vakti hjá honum hugmyndir og hugsjónir um hinar ýmsu framfarir. Það er kannski til marks um framfarasemi hans, að hann reisti steinsteypt íbúðarhús fyrstur manna í Öngulsstaðahreppi, ekki löngu eftir að steinsteypan hélt innreið sína í Akureyrarkaupstað. Þá var og ekki fyrr kominn rafstraumur á kaupstaðinn að Stefán hófst handa við að rafvæða nýja húsið (nánar um þá framkvæmd síðar). Hinum miklu undrum og kostum rafmagnsins hafði Stefán einmitt kynnst á heimssýningunni í Chicago (sbr. Benjamín Kristjánsson 1945: 99). Nánar um þá framkvæmd síðar. Stefán var mjög ötull við hin ýmsu félags- og trúnaðarstörf, hann var hreppstjóri Öngulsstaðahrepps um árabil og sat í stjórn KEA óslitið í meira en 30 ár. Stefán Jónsson á Munkaþverá hlaut riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu 1. desember 1938. Hann lést 9. nóvember 1943.

Byggingameistari við byggingu Munkaþverárhússins var Jóhann Franklín Kristjánsson, frá Litlu-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Hann hafði numið trésmíði á Akureyri en hélt árið 1908 til Noregs, þar sem hann m.a. nam húsagerðarlist við Kongelig Norske Kunst og Handverksskole. Þar mun hann hafa lokið prófi árið 1914 og hélt þá heim, þar sem hann tók til starfa sem byggingarráðunautur hjá Búnðarsambandinu. Var hann þar sérlegur ráðgjafi og leiðbeinandi bænda við byggingu steinhúsa (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:108). (Ólafur J. Engilbertsson 2021:14, segir Jóhann reyndar hafa hafið þessi störf 1913 en látum það liggja milli hluta). Það var Guðmundur Hannesson héraðslæknir sem stóð fyrir ráðningu Jóhanns en þeim var báðum mjög umhugað um bættan húsakost til sveita og beittu sér fyrir því málefni. Jóhann fór víða um sveitir landsins og mun hafa teiknað og stýrt byggingu fjölmargra húsa. Jóhann hafði umsjón með þessum málefnum þegar stofnaður var svokallaður Búnaðar- og landnámssjóður árið 1928 þar sem starfrækt var teiknistofa, sem frá og með árinu 1938 nefndist Teiknistofa landbúnaðarins. Tók þá Þórir Baldvinsson við forstöðunni, en Jóhann hélt hins vegar áfram störfum sem byggingameistari og hönnuður. Munkaþverárhúsið, sem reist var á árunum 1915 til 1917 var þannig eitt af fyrstu verkefnum hans á löngum og farsælum ferli. Byggingameistarar þessa tíma voru margir hverjir sannkallaðir frumkvöðlar, þegar nýtt byggingarefni hélt innreið sína auk ýmissa innviða, lagna og annars slíks sem fylgdi í kjölfarið. Jóhann mun t.d. hafa fundið upp aðferð til þess að gera útveggi tvöfalda úr sementssteypu, auk móta þar sem steypa mátti steina án vélbúnaðar. Þá endurhannaði hann eldavélar sem tíðkast höfðu, eins og segir í minningargrein Snorra Sigfússonar: „[Jóhann] endurbætti eldavélina með nýrri gerð um reykganginn. Eru slíkar vélar víða komnar í sveitabæi til hagsbóta og hlýindaauka þar, og bera þessar vélar hugkvæmni hans gott vitni“ (Snorri Sigfússon 1952:2). Þessi nýja eldavél, sem einnig nýttist til húshitunar var uppfinning Jóhanns og er hin valinkunna Sólóeldavél (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:108) sem meira að segja enn í dag þykir þarfaþing t.d. í fjallaskálum. Auk Jóhanns Franklín mun annar Jóhann og sá var Eyjólfsson (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018) einnig hafa verið með í ráðum við bygginguna. Jóhann Eyjólfsson var frá Sveinatungu í Borgarfirði og hafði tveimur áratugum fyrr staðið fyrir byggingu fyrsta steinsteypuhúss landsins á þeim bæ.

Íbúðarhúsið á Munkaþverá er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, með háu risi og miðjukvisti að framanverðu. Á bakhlið er aflangur kvistur með aflíðandi, einhalla þaki. Tvískiptir krosspóstar eru í flestum gluggum, veggir múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Undir rjáfri eru smáir gluggar á stöfnum og efst á kvisti er smár, sporöskjulaga gluggi. Á suðurstafni er útskot eða forstofubygging. Grunnflötur mælist um 14x9m á kortavef og útskot á suðurstafni um 2x6m. Húsið tengist að norðvestan tvílyftu steinsteyptu húsi, sem reist var sem íbúðarhús árin 1931-33 en er nú nýtt sem geymsla.

Nýja íbúðarhúsið var reist fast upp við syðsta hluta torfbæjarins (suðurstofu) og var reist tengibygging eða skúr þar á milli. Þar var annars vegar gengið inn í gamla bæinn en hins vegar voru tröppur að aðalinngangi nýja hússins, sem var norðanmegin. Útskotið sunnanmegin var nokkurs konar spariforstofa Stefáns og Þóru. Framan af voru lengst tvær íbúðir í húsinu, ein á hvorri hæð. Á neðri hæð bjuggu þau Stefán Jónsson og Þóra Vilhjálmsdóttir en systursonur Stefáns, Jón Marinó Júlíusson og kona hans Sólveig Kristjánsdóttir á rishæðinni. Flutt var inn í húsið árið 1918 en skráð byggingarár þess er 1917. Þótti húsið sérlega stórt og veglegt miðað við það sem tíðkaðist til sveita og dæmi um að fólk kæmi úr nágrenninu, jafnvel frá Akureyri til að berja hið nýja steinhús augum. Sérstaklega þótti kjallarinn rúmgóður og raunar svo, að hann nýttist íbúum Öngulsstaðahrepps sem leiksvið. Settu hreppsbúar þarna á svið Skugga-Svein, Matthíasar Jochumssonar, fljótlega eftir að húsið var byggt. Um 1924 byggði Ungmennafélagið Ársól félagsheimili fast norðan við íbúðarhúsið, voru þá rifin tvö þil af gamla bænum og húsið byggt í skarðinu. Rættist þá úr húsnæðisþörf hvað varðaði samkomur og leiksýningar Öngulsstaðahrepps. Reyndar var samkomuhald í þinghúsi á Þveráreyrum ytri, en þangað hefur mögulega verið full langt að fara fyrir íbúa syðstu bæja hreppsins. Ekki fer sögum af fleiri leiksýningum í kjallara Munkaþverárhússins en fyrir kom, að slegið væri upp dansleikjum í eldhúsi efri hæðar (sem var undir aflíðandi kvistinum á bakhlið, svo lesendur geti gert sér plássið í hugarlund).

Rafstöðin

Í Ameríkudvöl sinni á 10. áratug 19. aldar hafði Stefán Jónsson á Munkaþverá m.a. kynnst undrum rafmagnsins. Það leið þó á löngu þar til slíkt var raunhæfur möguleiki í sveitum landsins. Um 1920 voru komnar rafstöðvar við fáein hús á Akureyri og þar var rafveita tekin í notkun 1922. Góðvinur Stefáns, einnig framfarasinnaður frumkvöðull, Magnús Sigurðsson, hafði reyndar löngu fyrr (um 1906) athugað möguleika á raflýsingu á Grund en ekkert orðið úr. Sama ár og rafveitan var tekin í notkun á Akureyri hófust framkvæmdir við virkjun Þverár. (Hér ekki nefnd Munkaþverá, til aðgreiningar frá bænum). Voru það Stefán og systurbörn hans, Jón, Hallgrímur og Margrét Júlíusbörn, í félagi við rafstöðvarbygginguna, en þau systkin bjuggu á efri hæð hússins. Til ráðgjafar fengu þau sænska verkfræðinga, Einar Celion og Olof Sandell, sem þá voru staddir á Akureyri til undirbúnings Glerárvirkjunar. Byggð voru stífla og stöðvarhús og 17 staurar reknir niðu undir línulögn að íbúðarhúsinu. Jón Jóhannesson, eiginmaður Margétar Júlíusdóttur, mun hafa haft veg og vanda af umsjón byggingaframkvæmda, en margir komu að þeim. Var það Ásgeir Bjarnason, raffræðingur frá Siglufirði, sem sá um uppsetningu rafbúnaðar. Við þetta tækifæri var einnig lagt rafmagn í kirkjuna og Borgarhól (næsta bæ ofan og norðan Munkaþverár). Þegar Jón Jóhannesson og Margrét Júlíusdóttir reistu annað íbúðarhús 10 árum síðar fékk það einnig að njóta rafmagnsins frá Þverá efri. Rafstöðin þjónaði þessum húsum í nærri 35 ár, en árið 1957 tengdist Munkaþverá rafmagni frá Laxárvirkjun. En það var árið 1923 sem rafstöðin á Munkaþverá var gangsett. Við skulum gefa Laufeyju Stefánsdóttur orðið: Mér er í fersku minni þegar vélarnar í Munkaþverárstöðinni voru gangsettar árið 1923. Uppi á efri ganginum í íbúðarhúsinu var stór trétafla með mælum sem mældu spennuna og var sveif á henni. Heimilisfólkið sem þá var um 20 manns safnaðist saman á ganginum og horfði með lotningu á þegar faðir minn [Stefán Jónsson] sneri sveifinni og ljósin kviknuðu. Það var hátíðleg stund (Laufey Stefánsdóttir 1993:9). Ári og öld, bókstaflega, eftir að heimilisfólkið á Munkaþverá horfði andaktugt á þegar kviknaði á ljósaperunni (verði ljós og það varð ljós) er óhætt að fullyrða, að beinlínis öll tilvera hins vestræna heims grundvallist af rafmagninu.

Húslýsingar

Í brunabótamati árið 1934 er íbúðarhúsinu á Munkaþverá lýst þannig: Íbúðarhús 13x8,5m, hæð 8,5m. Útveggir úr tvöfaldri steinsteypu, skilrúm úr sama efni eftir endilöngu húsinu upp að ytri bitum, tvö timburskilrúm sömuleiðis. Loft, gólf og önnur skilrúm úr timbri. Járnvarið þak. Þá eru í húsinu kolaofn og nokkrir rafofnar, vatnsleiðsla og vatnssalerni. Áfastur skúr úr timbri, 4x3m, hæð 3m. Þar er væntanlega um að ræða skúrinn, sem byggður var milli gamla bæjarins og nýja hússins. Af öðrum byggingum má nefna tvö fjós, bæði með steinveggjum, annað með torfþaki en hitt með járnvörðu þaki. Tvær hlöður sömuleiðis, önnur steinsteypt en hin alfarið úr torfi. Þá er sjálfsagt að láta fylgja hér með lýsingu á Ungmennafélagshúsinu, en það var rifið um 1980: Það hús var 9x5,2m að stærð, 3,2m hátt með steinveggi á tvo vegu og timbur á aðra tvo vegu. Leiksvið úr timbri í öðrum enda, loft og golf sömuleiðis úr timbri. Kolaofn með steyptum skorsteini (sbr. Björn Jóhannesson 1934: án bls).

Í þessum brunabótavirðingum Öngulsstaðahrepps er herbergjaskipan ekki lýst en í tilfelli Munkaþverárhússins kemur það aldeilis ekki að sök. Við heimildaöflun fyrir þennan pistil rak á fjörur höfundar einhver sú ítarlegasta, nákvæmasta og skilmerkilegasta húslýsing sem hann hefur augum litið. Á Sarpinum svokallaða, má finna lýsingu Kristínar Jónsdóttur myndlistarkonu, sem jafnan kennir sig við Munkaþverá, en hún er dóttir Jóns Marinós Júlíussonar og Sólveigar Kristjánsdóttur. Lýsir hún gaumgæfilega innra skipulagi hússins eins og það var á 4. og 5. áratugnum og þar má einnig finna teikningu Kristínar, sem sýnir efri hæðina. Það var gengið upp á efri hæðina í norðausturhorni hússins. Þaðan var gengið inn í eldhús, sem var undir aflanga kvistinum á bakhlið. Um miðja rishæð var gangur þar sem gengið var inn í íveruherbergi efri hæðar, stofa fyrir miðju en herbergi undir súð; svefnherbergi fjölskyldunnar vestanmegin en gestaherbergi austanmegin. Kvisturinn að framanverðu tilheyrði neðri hæð, þar gistu jafnan gestir þeirra Stefáns og Þóru. Norðvestanvert á rishæð var svokallað piltaherbergi eða piltaloft og milli þess og kvists svokölluð „Dimmakompa“, þar sem stigi var upp á háaloft. Á piltaloftinu sváfu vinnumenn Stefáns.

Á neðri hæð minnist Kristín einna helst tveggja stóra stofa; stór stofa með tveimur gluggum að vestanverðu sem kölluð var baðstofan og gestastofan, sem prýdd var mjög skrautlegum og vönduðum húsbúnaði og munum. Suðurforstofan, útbyggingin, mun hafa verið nokkurs konar spariforstofa. Í kjallara voru búr, mjólkurbúr, þvottahús og geymslurými. Meginrýmið var að vestanverðu, svokallaður stóri kjallari. Það var þar, sem Skugga-Sveinn var settur upp í árdaga hússins. Þar voru dyr út á hlað að vestanverðu og auk almenns geymslurýmis var miðstöðvarketillinn staðsettur þar. Það fylgir sögunni, að hann tengdist aðeins upp á neðri hæð, engir miðstöðvarofnar voru á efri hæð, en þar var hins vegar kolaeldavél. Á gólfum voru ýmist fjalir eða linoleumdúkar, veggir panelklæddir eða þiljaðir en veggfóður í sumum vistarverum (sbr. Kristín Jónsdóttir, 2018).

Hér er hlaupið á algjöru hundavaði yfir hina mögnuðu lýsingu Kristínar af innra skipulagi Munkaþverárhússins. Rétt er að mæla með lestri þessarar frásagnar í fullri lengd: Hér er nánast hverju einasta skúmaskoti, krók og kytru í húsinu lýst sérlega nákvæmlega, og sögur á bak við hvert einasta atriði, t.d. húsgögn, stigahandrið og jafnvel dúka á borðum. Auk þess segir hún frá eigin upplifun af húsinu, munum, heimilishaldi, og fólkinu sem þarna bjó, svo að úr verður skemmtileg blanda af æviminningum og húslýsingu. Allt verður þetta einstaklega ljóslifandi fyrir lesanda. Það er viss ókostur, að svona langur texti er e.t.v. ekki þægilegur aflestrar af tölvuskjá, en hann er um 30 blaðsíður. https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=411069 (Ath. það þarf að smella á „Lesa meira“ eða „Opna í lesham“ svo allur þessi magnaði texti birtist í heild sinni). Þessi lýsing er öll í þátíð, enda hefur herbergjaskipan væntanlega tekið miklum breytingum. Íbúðin á efri hæð skemmdist t.d. töluvert í bruna í júní 1944 og var innréttuð á annan hátt eftir það. Nú mun húsið vera einbýlishús.

Fast við íbúðarhúsið á Munkaþverá stendur steypt bygging, sem flestum gæti sýnst vera fjósbygging eða eitthvað slíkt. Það er þó ekki svo, heldur er um að ræða íbúðarhús sem Jón Jóhannesson og Margrét Júlíusdóttir reistu sér árin 1931-33. Kallaði Kristín Jónsdóttir það hús Mögguhús, og hér má sjá uppdrátt hennar af því. Þar hefur hins vegar ekki verið búið áratugum saman og húsið nýtt sem geymsla. Skömmu eftir byggingu þess byggði Stefán Jónsson skúr sem tengdi íbúðarhúsin saman og var þar kominn nokkurs konar sameiginlegur inngangur.

Síðari áratugir og niðurlag

Það er skemmst frá því að segja að Munkaþverá er enn í eigu og ábúð sömu fjölskyldu og byggði núverandi hús. Að ytra byrði er húsið lítið sem ekkert breytt frá upphaflegri gerð. Við skulum bera niður á árunum 1970, 1990 og 2010 þegar Byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil, í samnefndum ritverkum.

Ábúendur og eigendur árið 1970 voru þau Jón Stefánsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir frá Efra-Ási í Hjaltadal. Jón var fæddur hér, sonur Stefáns Jónssonar. Þarna er íbúðarhúsið er sagt 520 rúmmetrar að stærð, en aðrar byggingar eru fjós fyrir 31 kú og kálfafjós, fjárhús fyrir 200 fjár, hesthús fyrir 22 hross, hlöður og votheysgeymslur. Allar byggingar steinsteyptar. Túnstærð er 28,47 hektarar, töðufengur um 1700 hestar og úthey um 800 hestar. Bústofninn telur 24 kýr, 25 geldneyti, 190 fjár og 22 hross, svo hesthúsið er m.ö.o. fullsetið (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973: 365).

Árið 1990 eru ábúendur þau sömu og 1970, en nú hafa margar byggingar verið endurnýjaðar. Byggingarára annarra bygginga en íbúðarhúsa er ekki getið í eldri bókunum. Þá eru íbúðarhúsin mæld í fermetrum, ekki rúmmetrum og er íbúðarhúsið sagt 345 fermetrar. Byggingar á Munkaþverá, auk íbúðarhússins eru eftirfarandi: Hlöður, byggðar 1928, 1976 og 1990, samtals 5217 rúmmetrar. Fjós byggt 1972, 48 básar og geldneytapláss, fjárhús byggt 1990 fyrir 200 kindur. Vélageymsla byggð 1950, 132 fermetrar. Þá eru taldar geymslur byggðar 1931, 1934 og 1950 og þær frá 1931-34 eru væntanlega íbúðarhús Jóns og Margrétar. Bústofninn 1990 telur alls 90 nautgripi, þar af 40 kýr, 198 fjár og 24 hross. Ræktað land er 59,1 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 963). Jón Stefánsson lést árið 2006 en árið 2010 er Aðalheiður Guðmundsdóttir eigandi jarðar og ábúandi, sem og synir hennar Jón Heiðar og Vilhjálmur Björn. Byggingar eru þær sömu árið 2010 og þær voru árið 1990, ræktað land mælist 59 hektarar og bústofninn telur 41 kú, 38 aðra nautgripi, 141 fjár og 16 hross (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:519).

Íbúðarhúsið á Munkaþverá er aldursfriðað eins og öll hús sem byggð eru fyrir 1923. Sögulegt gildi hússins, sem eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið í sveitunum framan Akureyrar og það fyrsta til að rafvæðast, hlýtur að vera töluvert. Enn má sjá ummerki um rafstöðina í gilinu, skammt ofan og austan við Eyjafjarðarbraut eystri. Húsið er formfagurt en látlaust og til mikillar prýði og nýtur sín vel á skemmtilegu bæjarstæði. Ásýnd Munkaþverár er einkar geðþekk; skógarlundur, kirkja, íbúðarhús og aðra byggingar mynda skemmtilega heild undir brekku á eyrum við hrikalegt gil. Og hér drýpur sagan af hverju strái, enda hefur hér verið búið í um 1100 ár, hér var klaustur í hundruð ára og staðinn sátu jafnan höfðingjar.

Nærmyndirnar af íbúðarhúsinu eru teknar 7. október 2023 og myndir af bæjarstæðinu sem teknar eru með aðdrætti þann 15. apríl 2023. Myndin af leifum rafstöðvarmannvirkja er tekin 10. júní 2019. Myndin af Strandgötu 45 er tekin 10. júlí 2013.

Heimildir: 

Án höfundar. 1920. „Steinhús mikið“ Norðurland 15. júlí 28. tbl. 15. árg. bls. 1. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Benjamín Kristjánsson. 1945. „Stefán Jónsson, bóndi á Munkaþverá“ Nýjar kvöldvökur 38: 97-100. Sjá tengil í texta.

Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007. Munkaþverárkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 197-241. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Kristín Jónsdóttir. 2018. Munkaþverá í Eyjafirði. Svarsending við Sarpur: 117 Heimilislíf, húsbúnaður og hversdagslíf, spurningalisti settur fram 2012 af Þjóðminjasafninu. Safnnúmer B - 2012-3-126. Sótt 8. ágúst 2024 á slóðinni: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=411069

Laufey Stefánsdóttir. 1993. „Um rafstöðina á Munkaþverá.“ Súlur Norðlenskt tímarit 33: 6-10.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ólafur J. Engilbertsson o.fl. 2021. Þorsteinn Baldvinsson arkitekt. Reykjavík: Sögumiðlun.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.