Fara í efni
Menning

Hönnunarsamkeppni um Akureyrarvöll í bígerð

Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að koma á fót vinnuhópi með þremur til fimm fulltrúum til að vinna að gerð samkeppnislýsingar fyrir Akureyrarvöll, í samráði við starfsfólk skipulagsfulltrúa. Miðað er við að skipað verði í hópinn á næsta fundi ráðsins. 

Breytt nýting svæðisins á sér nokkurn aðdraganda og hefur undirbúningur verkefnisins dregist nokkuð, meðal annars vegna manneklu og mikilla anna við önnur verkefni, eins og fram kom í fundargerð bæjarstjórnar í mars í fyrra. Skipulagsfulltrúi fundarði með formanni Arkitektafélags Íslands í apríl þar sem farið var yfir málið og næstu skref fyrir hönnunarsamkeppni um svæðið.

Leggur áherslu á vilja íbúanna

Jón Hjaltason, utan flokka, lýsti sig samþykkan því að koma á fót vinnuhópnum, en leggur mikla áherslu á að íbúar Akureyrar fái að leggja dóm á niðurstöður hans. Jón hefur áður bókað í bæjarstjórn og skipulagsráði þar sem hann sagði meðal annars öfugt að farið því fyrst ætti að leita eftir vilja íbúanna áður en farið yrði út í samkeppni um hönnun og nýtingu svæðisins. Í nóvember í fyrra bókaði hann til dæmis í skipulagsráði: „Áður en lengra er haldið skal kanna viðhorf Akureyringa til íþróttavallarins við Hólabraut. Vilja bæjarbúar fá þar friðlýst svæði til almenningsnota – fólkvang – eða skal völlurinn nýttur til þéttingar byggðar?“

Jón bókaði á sömu nótum í apríl þar sem hann kallaði eftir íbúaþingi sem fyrsta skrefi í undirbúningi að breyttri nýtingu svæðisins og í við umræður um málið í skipulagsráði í júlí lagði hann „eindregið til að aðal-knattspyrnuvöllurinn verði allur til útivistar. Ennfremur að brekkan upp af verði hugsuð til leikja. Byggingar komi fyrir norðan völlinn, austan - þó þannig að húsaröðin upp Brekkugötu blasi sem fyrr við þeim sem fara um Glerárgötu og meðfram Smarágötu og áfram suður Hólabraut. Slíkar hugmyndir verði síðan lagðar til grundvallar í skipulagssamkeppni um Akureyrarvöll á Akureyri,“ eins og hann orðaði það í bókun.

Í dóm Akureyringa með öllum tiltækum ráðum
 
Á fundi ráðsins í morgun lýsti Jón sig þó samþykkan því að koma á fót vinnuhópi, en leggur áfram mikla áherslu á að niðurstöður vinnuhópsins verði lagðir í dóm Akureyringa, með öllum tiltækum ráðum. Bókun Jóns er svohljóðandi: 
 
„Ég lýsi mig samþykkan því að settur sé á laggirnar umræddur vinnuhópur að því tilskildu að niðurstöður hans verði með öllum tiltækum ráðum – meðal annars á opinberum borgarafundi – lagðar í dóm Akureyringa. Betra samt væri þó að skoða hugi bæjarbúa varðandi þá einföldu spurningu hvort þeir vilji yfir höfuð að byggt sé á Akureyrarvelli. Það er hið eðlilega fyrsta skref.“